30 May 2012

tannbustinn og ég

...er góður titill á hugsunum dagsins því ég ligg hér á rúminu alveg búin á því með höfðuð tómt og tannbustann liggjandi á brjóstkassanum....

þriðja heimstyrjöldin.. sumarfrí og sumarafleysingar.. jesú og kynlíf hans.. hunangus..  og ég

Hann rölti niður Laugaveginn með mér klæddur lopapeysu í mögnuð hita...  bara fyrir mig


Mig langaði að sjá viðbrögð og var með myndavélina með í ferð í von um að ná ógleymanlegum augnablikum  föstum á stafrænu formi.


sumarið er tíminn þar sem lífið lifnar við.....   eða eitthvað.


Ég kann ágætlega við þennan þótt hann sé hátt uppi og fjarlægur....


hunangus er saga um eitthvað sem hverfur frá því sem vil það.....  


Ég reyndi fyrir mér í heimi blaksins....  ég er ekki ennþá búin að gefa upp alla von um frægð og frama á þeirri braut en ætli ég verði samt ekki að athuga hvort það séu til einhverjar hlífar svo ég eigi möguleika á eðlilegu lífi eftir bolta....


og þetta eru myndir sem voru teknar áður en ég varð blá í þriðja sinn...... 

28 May 2012

brunarústir

Sólin kyssti mig aðeins of fast í dag......

Ætli ég komi ekki til með að eyða nóttinni ráfandi um götur borgarinnar, fáklædd og í leit að kælingu.   Það mætti segja mér það.


27 May 2012

heilabæting

...núna les ég Memo, Notaðu Höfuðið Betur og brain rules til að reyna að ná upp nýtilegum heila.   Við fyrstu hraðskoðun gengur þetta út á að hreyfa sig reglulega, gera heildamyndina skýrari með hugsanastormun á blaði og endurtekningar.

heilinn viktar víst 2% af líkamsþyngd minni en eyðir 20% af orkunni svo það er vænlegast til vinnings að hreyfa sig hraustlega svo heilinn fái hratt súrefni til að vinna orkun án þess að líkaminn safni fitu úr úrgangsefnum.

Bifreiðaskoðunarframhaldsskólakennaraleigubílstjórinn kom hér og færði mér tvo eldhússtóla.  Svo að núna get ég sitið inni í eldhúsi og borðað, skrifað á blað og hangið með hendur undir kinn.  

Ég er að hugsa um að leggja rækt við skotfimi samhliða öðrum áhugamálum.  Ég veit að ég má ekki ferðast með vopnið nema hulið svo núna er ég að velta því fyrir mér hvot ég megi ferðast um í strætó með hulið vopn... til að komast á milli heimilis og æfingarsvæðisins.   

Það er alltaf eitthvað sem maður er að velta fyrir sér..........

hreyfing:   gekk niður Laugaveginn
næring:   pasta með tófú, lauk og spínati 

saga dagsins er um drenginn sem stakk höfðinu á milli rimla girðingar og sat þar fastur....
afrek dagsins eru enginn....
upplifun dagsins var athygli fólksins sem virkilega tók eftir peysunni....
loforð dagsins fjallar um hvar ég ætla að halla höfði mínu í vetur....
væntingar dagsins snéru um gló eða annan sambærilegan stað en það var allt lokað.....
vonbrigði dagsins voru þegar ég uppgvötaði að dagur var að kvöldi kominn og ég var ekki búin að gera neitt gáfulegt....

megi ég lengi lifa og súkkulaðið í mínum ísskáp vera lengi til....

konan uppi á lofti....

....gerir mig skapstygga þegar mig vantar að þvo þvottinn minn.   Þess á milli kemst ég oftast að raun um að hún er bara eðlileg mannvera rétt eins og ég og þú.  Einstaklingur með sínar vonir og þrár.  Með sinn fortíðarpakka og aðstæður eins og þær eru í núinu.   Rosalega finnst mér gaman að spyrja fólk spurninga og sjá hvað ég fæ að ganga langt inn í einkalífs þess.

Vitið þið hvernig kynlífi nágranna ykkar er háttað..............    ég veit það....... en ég hef náttúrulega líka fyrir því að spyrja.

Toppmaðurinn er asni og veit af því.....   en bara afþví að ég sagði honum það.

26 May 2012

lífið er ekki dásamlegt alltaf

..en svona yfirleitt.

Núna velti ég því fyrir mér hvort ég geti tekið riffilinn með í skálavörslu, veiðistöngina og málaratrönur.....

Einhvern veginn tekst mér að hlaða svo upp verkefnum í kringum mig að ég á fullt í fangi með að leysa þau sómasamlega af hendi.   Eða bara leysa þau yfir höfuð.    Einhver sagði að fyrsta skrefið í átt í að leysa svona mikið af verkefnum væri að skrifa þau niður, forgangsraða þeim og byrja.

vinnuskýrsla
prófarkalestur
heimilisþrif
ná í hjólið mitt
ungbarnaprjónaskapur
lopapeysuprjónaskapur
kökubakstur
póstkortaskrif
bókalestur
riffilshreinsun
veiðistangarveiðiferð
stinga upp kartöflugarð og setja niður útsæði
fara í sund
leika mér með eina mynd í photoshop

og halda áfram að elska mig bak og fyrir............


25 May 2012

húðblámi

Síðasti tíminn í byrjendanámskeiði í Blaki verður í kvöld.  Síðan get ég byrjað að gróa sára minna.

Framundan er helgi.  Svo ég fór í Veiðiröstina og keypti mér nokkur skot.....


150 skot verða fljót að fara.

Þar sem veðrið framundan er ekki svo yndisleg, skutlaðist ég á bókasafnið svo að það væri öruggt að mér myndi ekki leiðast um helgina....


Mitt helsta áhyggjuefni í þessum heimi er að leiðast eða svelta í hel.  Hvorugt góður kostur svo að ég vinn markvist að því að það hendi mig ekki.

Ég á kisuberjatómata, tvo bjóra og tófú.....


Ég fór út í garð úti í bæ til að passa hunda.  Þar var þessi rabbabari............

óskalistinn

Bráðum á ég afmæli.......


og eins og það virkar eitthvað skringilega þá kemst ég á sextugsaldurinn þá....

 ......eitt orð, setning, ljóð, saga, teikning eða eitthvað handgert eftir þig er það sem ég óska mér í gjöf þennan dag........

23 May 2012

sandland

Ég stel reglulega á skipulagðan hátt sandkornum frá Kópavogi og flyt hingað yfir til Reykjavíkur.  Gæti komið sér vel einhvern daginn.

Elín, hreyfa sig...  Elín, setja rassinn nær jörðinni...  Elín, ekki bíða eftir boltanum...  Elín, snerta boltann...  Elín sjáðu, svona á að gera þetta...  bergmálar í eyrum mínum ennþá, löngu eftir að ég er búin að yfirgefa Landsliðsþjálfarann.

Minn Vinnustaður var eitthvað svo allveg að missa sig í dag að það hálfa hefði verið nóg.  Og það var alfarið Starfsfólk sem gat ekki verið á eitt sátt um meðferð mála.

Ég er svöng.......

22 May 2012

fullmikiðafþvígóða

éG eR ölLL mARIN oG bLÁ......

....og svo eru einhverjir undalegir verkir sem heilinn skynjar þegar ég hreyfi mig.

En hugsanir mínar eru nánast á núll stillingu.... ég veit bara ekki hvort það er vegna þreytu eða vegna yfirvegunar sálarinnar.    Ég vona eiginlega að það sé frekar vegna þreytu en yfirvegunnar vegna þess að ef yfirvegunin er búin að vinna verður líf mitt svo viðburðarrýrt í minni framtíð.

póstkort- Æmaðurinn- prjónaklúbbur- vesalingarnir -riffillinn- veiðistöngin- pendúll- popp- peningar- vinnuskýrsla- nám- nennan- kindle- bókalestur- rauðvínsdrykkja- vorferð- hjólaferð- hjólað í vinnuna-kartöfluútsæði- bláskel- sjósund- tjaldferð- austurstræti- skotfæri- skotvopnabókin- veiðikortið- Smalinn-Toppmaðurinn- pabbi

Ég verð eiginlega að hugsa þetta betur á morgun.......

21 May 2012

draumar mínir...

...hringhvolfast um sjálfa sig núna.


Ég fór á byrjendanámskeið í strandblaki þar sem ég kem til með að fylgja fyrirmælum landliðsþjálfara út í eitt þrjú kvöld í þessari viku.

Ég stefni á hjólreiðaferð til Þingvalla sem krefst æfingaferðar næstu daga.

Og ég held að ég verði að ganga á Snæfellsjökul við fyrsta tækifæri til að detta ekki um draumana þar sem þeir fæðast hraðar en hönd á festir.


Que sera, sera
Whatever will be, will be
The future's not ours to see
Que sera, sera

Ég er samt að hugsa um að dansa í kringum drauma mína ef svo vildi til að þeir yrðu framtíð mín.

Ég elska líf mitt alla daga.   Stundum er það ekki eins og ég vil hafa það en flesta daga færir það mér kitl í maga, bros í heila eða gleðifullu harta.

Skál fyrir hamingju minni.....



20 May 2012

í ferð með áttarvita og pendúl

Það er eitthvað við það sem áður var.   Eitthvað sem lætur mér líða vel við að snerta, horfa og hugsa um....


Ég byrjaði daginn á því að átta mig á því að úti væri sól sem ég gæti ekki falið mig fyrir...  


Svo að ég og hundarnir sátum úti á stétt, ég með tölvuna, hafragrautinn og kaffið og þeir að rífa kjaft yfir kattargreyi...

Svo lagði ég land undir dekk og fann lífið sem ég vil lifa....


fann hugmyndir sem ég vil kynnast...


fann kraftinn í því sem er, var og verður....


og fattaði að ennþá er heill hellingur sem ég á eftir að gera áður en himnarnir hrynja yfir mig.

Get ég siglt á Þingvallavatni eins og ég vil.................. t.d. á kayak 

áhorf

Ég tók mér spólur í gær.

Það er ekkert nema gott um það að segja nema það er sól.   Því miður virkar ekki að sita úti í sólinni og horfa á spólur.  Svo ég hef val um að sita inni í dag og svala forvitni minni um hvað á þessum spólum er eða fara út í sólina.  Ég er virkilega öfgafull manneskja svo að í gær þegar ég stóð frammi fyrir vali á afþreyingarefninu endaði ég með að ganga út með þrjár spólur.  Mary and Max, Freakonomics og eitt eintak af ormaholu Morgan Freeman.

Ég er búin að horfa á Mary and Max fjórum sinnum..............

Ég er sko alveg að passa allt sem ég á að passa þótt það sé kannski ekki gert eins vel og Heilsuhvíslarinn gerir það.


Ég fékk orðið í hendurnar þar sem ég stóð á Mínum Vinnustað...


Og Akureyrahluti ættar minnar sat fyrir framan mig í gær.....

19 May 2012

skoðunarferð

Ég er ekki ein sú duglegasta í þessum heimi.  Ég kláraði þó af að skila skattskýslunni minni.  Það telst til afreka...

Vinkona mín bað mig að passa börn og bú, sem inniheldur hunda, ketti og kanínu.  Ég er auðvitað best í heimi til að passa það sem í raun getur passað sig sjálft en ég er ekki að átta mig á því hvernig fólk með svona umfangsmikið bú getur hreinlega tórað í þessu lífi án þess að missa sig.   

Dóttir mín þurfti að fara að hlusta á einhvern messa.  Ég græddi félagsskap.....


Minnug þess að smáfólk þarf að hreyfa sig ef vel á að fara, bað ég hana að koma með mér að viðra hundana....


Það væri synd að segja að hún hefði ekki ánægju af að æða í átt að sjóndeildarhringnum....


Ég gerði mistök þegar ég galaði á hana að koma til baka strax á nóinu þegar ég fékk allt í einu hræðslukast um að missa hana í ánna ef hún héldi áfram.  Auðvitað átti ég að leyfa henni að rúlla bara ofan í ánna.  Það var svo sem ekki eins og ég myndi ekki ná að veiða hana uppúr fyrir drukknun... 


Ég endaði svo með að hátta hana úr flestum flíkunum og senda hana út í lífið aftur með ósk um að hún æfði sig í að detta ekki í 'helvítis' ánna...

Ég fór og skoðaði jarðaberjaplönturnar mínar í morgun.  Ég svamlaði líka í Lágafellslauginni fyrir upprisu barnanna sem eru á minni ábyrgð.  Ég verslaði í Krónunni og subway, borðaði á kfc með ættingjum og talaði við strák sem sagði:  ..hæ elskan.. þegar ég svaraði hringingu hans.


Þá er það bara popp og vatn og áhorf á Mary & Max....

15 May 2012

á rauðu ljósi

Ég er búin að eyða tíma mínum í að ætla á hnjúkinn, vera á hnjúknum og hafa verið algjör eðalgöngugarpur uppi  á hnjúknum sjálfum þegar mér var bent á það að ég hefði aldrei farið á neinn hnjúk.

Hvannadalshnúkur er þetta víst svo að ég biðst velvirðingar á að hafa verið að blekkja ykkur með endalausu bulli um hnjúk....

Ég veit hvað ég vil að dagurinn í dag fari í, ég veit hvað dagurinn í dag ætti að fara í en ég hef ekki hugmynd um hvernig hann mun svo fara þegar upp er staðið.   

Ég er búin að gleyma tilvist Æ-mannsins og amerísku peysunnar hans endanlega og hef snúið mér alfarið að ungbarnafataprjóni .   Svo er það lopapeysan mín, lopapilsið og allt hitt sem ég á óunnið.  Auk þess á ég margt eftir ólesið, óhorft og óhlustað.  

Smalinn er ónýtur.  Núna er það alveg staðfest fregn.  Hann fór til læknis og læknir sagði honum það sem ég gat svo sem  alveg sagt honum án þess að rukka hann fyrir orðin.   Hann Á að taka því rólega og skilgreiningin á því rólega er engin fjöll, ekkert hjól og engin hreyfing sem rífur vöðva.   Ég er svona rétt að velta því fyrir mér, Smali, hvort það að fara út að skjóta flokkist undir að hafa það rólegt......

Endomondo er svona app í nýja flotta símanum mínum sem á að halda utan um hjólahreyfigleði mína svo að ég sjái.  Endomondo segir mér hvaða dag ég hreyfi mig, klukkan hvað, hversu langt, á hvaða tíma, hversu hratt og hvers eðlis.   Endomondo segir alla daga að ég hreyfist bara eins og skjaldbaka.   Ég er alveg að kaupa það því Toppmaðurinn sagði að alvöru hjólafólk færi á 19 km hraða, almennilegt fólk á 15 og ég á 12.

Stefnan er sett á hjólreiðaferð í framtíð minni..............

14 May 2012

garn, efnisbútar og annað föndurefni

Það voru sett upp langtíma plön um að vinna upp alla ókláraða handavinnu á þessu heimili í dag.

Afkvæmi fjögur hringdi í dag og óskaði mér til hamingju með daginn....
Afkvæmi tvö svaraði með þunnri röddu að það væri of upptekin þennan dag til að ræða við mig þegar ég hringdi....
Afkvæmi eitt sagði: ..ekkert mál elsku mamma.. þegar ég hringdi og bað um að vera keyrð eftir sólgleraugum stax....
það fórst svo alveg fyrir að hringja í Afkvæmi þrjú.....

Ég sjálf mundi eftir að ég ætti móður og hringdi í hana.

Ég grét hálfan daginn í dag en ekki eins sárt og í gær.  Heimurinn allur lagaðist svo þegar ég var búin að setja upp sólgleraugun.  Núna vona ég bara að mér verði batnað á morgun.

Hnjúkurinn, veðrið og félagsskapurinn allur dansar um í minningarbrotum huga míns.


Leiðin á hnjúkinn tók fjórtán klukkutíma sem vöruðu í raun mikið styttra en aðrir fjórtán klukkutímar.  En stundum þurfti að taka tvær mínútur svona rétt til að kasta mæðinni í endalausu brekkunni sem er drjúgan hluta leiðarinnar...


Fyrir framan mig voru tveir einstaklingar fyrir aftan mig fjórir.... 


Svo voru teknar nestispásur sem gáfu færi á að pissa bak við snjóhleðsluvegg.  Ég reyndi að segja þessari að þetta væri ekki alvöru fyrr en búið væri að pissa í línunni en hún neitaði að kaupa það svo ég pissaði bara bak við þessa snjóveggi eins og hinar stelpurnar enda búin að pissa í línu oftar en tvisvar..


Það var kalt þarna uppi á toppnum....


Vinkona mín talaði um hvort ég hefði ekki smellt myndum hægri vinstri til að fanga augnablikið.  Ég svaraði því til að myndir myndu bara valda því að mig langaði þangað aldrei aftur.  Ég verð hins vegar að viðurkenna að kuldi, sjónskerðing og lélegur tækjabúnaður olli því að mig langaði bara ekkert að taka myndir þarna á toppnum.  En ég tók mynd af manningum sem leiddi mig upp (Smára @ Laugarvatn Advanture)  og svo þeirri sem mætti á svæðið af þríteyminu mínu....


Niðurleiðin var einhvern  veginn léttari en ég bjóst við eða ekkert svo sólbráðinn snjór til að sökkva í....


Nánast múgur og margmenni rétt á meðan við fórum upp og niður litlu nibbuna sjálfa sem er eftirsóknaverðasti staður jökulsins, toppur alheims okkar íslendinga.

HVANNADALSHNJÚKURINN rokkar.......

12 May 2012

Hvannadalshnjúkur

Ég eyddi föstudeginum í að puðast upp á hæðstu bunguna á fósturjörðinni minni.....

Það er um það að segja að það hlýtur að vera ómissandi þáttur í lífi  sérhvers manns að gera eitthvað sem honum finnst afrek.   Mitt afrek á þessu ári var að sigrast á 2109,6 metra hárri bungu Íslandsins.  Að verða ekki kalt, að deyja ekki úr hungri og að hrapa ekki ofan í einhverja sprungu þennan dag....

Það er eins og með öll önnur afrek í lífinu.....  maður hefur ekki gert þau einn.   Því vil ég þakka samferðafólki mínu fyrir að vera þarna einhvers staðar í 5-6 metra fjarðlægð við mig í nánast alla þessa fjórtán og hálfan klukkutíma sem gangan tók okkur með halta manninn á niðurleiðinni.  Smára hjá Laugarvatn Advanture fyrir að leiða mig upp og niður.  Vinkonu minni Hafrúni til að neyða mig til að þjálfa mig fyrir þessa göngu.  Gönguglaða hjúkrunarfræðingunum sem kom mér í skilning um að laugardagurinn væri úti, tímanlega til að breyta öllu.  Börnunum mínum öllum fyrir að taka því með stóískri ró að eiga svona órólega mömmu.  Pabba og mömmu fyrir að gefa mér þetta líf.  Og öllum þeim sem á vegi mínum hafa verið á lífsgöngunni og gert mig að því sem ég er.

Svo við gleymum ekki konunni sem vann fyrir mig þrátt fyrir að eiga skemmtileg plön sjálf, deildarstýrunni fyrir að gefa mér frí þrátt fyrir allt og þeim sem lánuðu mér fylgihluti sem björguðu lífi mínu.

jamm.....  mér líður ógeðslega vel á sálinni núna.

Sólgleraugnaleysi olli samt tímabundinni snjóblindu, nestisval olli þrekleysi í vöðvunum og lélegur tæknibúnaður olli fáum minningarbrotum í formi mynda.

10 May 2012

sprungusvæði

Ég er með stórt nef....  ég tók eftir því áðan þegar ein af myndunum mínum ferðaðist um á skjánum hjá mér.

Peysan er komin eins langt og hún fer í mínum höndum..... svo að eftir morgundaginn kem ég til með að vera  óhuggandi enda verður forsjá hennar þá komin algjörlega úr mínum höndum og hann einn mun axla ábyrgð af henni um aldur og ævi.

Hugmyndin er hans, efniviðurinn er hans en ég gekk með hana þar til hún fæddist heil og áþreifanleg.

Það er ekki laust við að ég finni fyrir eftirsjá....

Á föstudag mun ég verða stödd á hæstu þúfu Íslandsins, öskra út í tómið og anda að mér gleði þeirra sem geta. Svo mun ég sita í heitum potti, borða dásamlegan mat, skvetta í mig einum bjór og hreykja mér yfir eigin afreki í eyru þeirra sem skilja.

Eftir það fer ég heim og held áfram að lifa....

09 May 2012

tómið

Ef ég ætlaði að segja eitthvað núna yrði það bara bull og vitleysa um sæta stráka, notarlegt líf og hvaða gagn það gæti gert að stara á vegginn og reyna að sjá það sem er..... 


Ég er....


Guð er dauður.....


..og ég get ekki séð að það breyti.....

06 May 2012

daglegt líf

Ég lifi lífinu yfirleitt lifandi þótt ég dvelji langtíðum við drauma mína....  Samt var mér sagt einhvern tíma að sköpun lífs míns hæfist með draumi minum.

Galapínið er búið að veltast um í návist minni töluvert..  Ef veðrið er þokkalegt næ ég að fá hana til að koma út að leika...



Við erum alveg rosalega góðar saman.....

Ég stökk upp í Esjuhlíðar um daginn til að ná upp þreki fyrir hnjúksferð..


Þegar ég var rétt að klára aðra umferð hringdi síminn minn og mér var boðið í róður... en fyrir róður var mér boðið í mat...

Maðurinn er náttúrulega ómótstæðilegur.


Í millimánaðasundinu hitti ég ManninnMeðFallegaBrosið og hann spurði hvort ég ætlaði ekki að skella mér með í Hekluferð....   ég sagði;  ..nei, ég er að vinna alla helgina.   Í vinnunni röflaði ég svo um hverju ég var að missa af þar til Skreppihjúkkan fékk nóg og gaf mér frí...


Þvílíkar snilldar ferð.....


En núna er komin nýr dagur........

04 May 2012

EViPRG...

... hélt alþjóðlegt málþing í Öskju í dag.

Ég heyrði stelpu segja að ef ég kæmist upp að Steini á einum klukkutíma og tuttugu mínútum þá kæmist ég á Hvannadalshnjúk.....   Ég komst á einum klukkutíma og fimm mínútum í eigin félagsskap og með afkvæmi hugsanna minna flögrandi um í höfði mér.

Ég heyrði líka strák segja að ef ég gæti gengið upp að Steini og niður og svo aftur upp, og niður ef mig langaði heim, þá kæmist ég á Hvannadalshnjúk....   Ég gekk þar af leiðandi tvær ferðir upp að Steini í Esjuhlíðum á fjórum klukkutímum og eitthvað.

Ég heyrði svo GönguglöðuHjúkkuna segja í mín eigin eyru að ef ég kæmist ekki upp á Heklu þá hefði ég ekkert að gera á hjúkinn sjálfan.   Svo að þrátt fyrir að ég hafi verið í vinnu í allan dag og á að vera á morgun og næsta dag líka að vinna allan daginn þá ætla ég að keyra austur þegar vakt lýkur um hálf tólf, skrópa í vinnunni á morgun og vinna svo sunnudaginn eins og lög gera ráð fyrir.

Mér finnst ég samt vera þreklaus og hægfara snigill......

02 May 2012

kröfur dagsins

ég klóraði mér í rassinum í allan dag.....  og það algjörlega án árangurs.

Á morgun ætla ég því að gera eitthvað af viti.  Af því tilefni er ég að skríða upp í rúm, háttuð, tannbustuð og með enga bók.  

Verðandi Trúabragðafræðingur þarf aðstoð alla daga með Galapínið.  Það hefur eitthvað með það að gera að hún ætlar að útskrifast með fyrstu Háskólagráðuna sína núna.  Ég þarf að vera að reyna á líkamlegt þol mitt alla daga. En það hefur eitthvað með það að gera að ég ætla að ösla snjó og læti á leið minni upp á hæðsta tind Íslands eftir tíu daga.  Og svo er það Minn VInnustaður sem krefst þess að ég láti sjá mig.  Það hefur nátturuleg eitthvað með það að gera að ég verð að lifa.

Sjálf er ég með hugann bundinn við peysu, strákinn sem á að fá peysuna og þá staðreynd að ég er að fara að kenna í Borgafirði á morgun.

01 May 2012

þroskandi

amma, hann er góður er það ekki
amma, hvar eru fötin mín
amma, komdu
amma, sjáðu beljuna hún er að súpa

Það er ekki laust við að mér finnist ég gömul í dag.


Áætlun gengur út á að klára að prjóna eitt stykki peysu, undirbúa kennslustund og vita eitthvað meira í dag en í gær.    Ég ætla líka að ganga á Helgafellið, mæta í vinnu og klára að vaska upp allt leirtauið mitt sem eftir er.


 Í gær mætti ég í Nornasund í Nauthólsvíkinni um miðnætti.  Það var notarlegt......


Á morgun ætla ég að mæta aftur í Nauthólsvíkina ef ég nenni....