28 September 2014

ein ég sit og teikna....

hreyfing:   ..engin..

næring:   ..hafragrautur með berjum..

eftirvænting:   ..að horfa á UFC í kvöld þar sem Conor Macgregor kemur til með að berjast..

afrek;   ..skrifaði á 24 póstkort og gerði klár fyrir pósthúsferð á morgun..

Á morgun verð ég löggiltur teljari.  Þeim titli mun ég halda næsta hálfa mánuð eða svo meðan ég nýt þess að vera í fríi frá mínum vinnustað.


Ég á stundum erfitt með að átta mig á því hvað er til bóta...


en þegar hér var komið að sögu var pappírinn búin að fá nóg...

25 September 2014

To Do

-fara á tónleika Rósu frænku..
-verða frægur teiknari..
-vinna í lottói..
-giftast sambýlingnum..
-muna eftir ættingjum og vinum..
-fá vinnutilboð sem ég er tilbúin að deyja fyrir..
-verða betri en ég er..

21 September 2014

ég gæti dáið fyrir döðlu núna....

hreyfing;   ..frá stólnum mínum að eldhúsinnréttingunni aftur og aftur í dag..

næring:   ..hafragrautur 3x..

ánægja:   ..hitti 2/3 af barnabörnunum mínum..

afþreying:   ..taka til á tölvunni minni..

smakk;   ..te úr piparkornum og kardimommum..


Ég á það til að telja athafnir dagsins og meta gæði míns eigins lífs á hvað mikið ég kem í verk og hvað eftir mig liggur...

Svo það má teljast kraftaverk að ég nái að halda hvíldardaginn heilagann....

Á mánudagskvöld ætla ég að sita í píkutorfu og anda inn og út í stóískri ró og finna hvað hjartað segir mér...

Á þriðjudagskvöld ætla ég að elska eitt barnabarnið og leyfa því að hrjóta upp í eyrað á mér...

Á miðvikudagskvöldum geng ég með ókunnugu fólki og svo  hitti ég vinkonu mína á kaffihúsi og vinn í því að finnast það allt í lagi að sita með teikniblokk, pennaveski, tebolla og teikna fyrir framan ókunnugt sem kunnugt fólk...


Á fimmtudagkvöld ætla ég að hitt konu sem ég er búin að vera að teikna fyrir...

Á föstudagskvöld brölti ég upp í Esjuhlíðar ef veður verður skaplegt...

Allan laugardaginn geng ég á milli málningarborðsins míns og eldhúsborðsins þar sem ég mála, teikna, lita, horfi á myndbönd um listasmíð og fletti bókum um viðfangsefnið...

Sunnudaginn nota ég svo til helgihalds sálu minnar til heilla...

..ég lifi góðu lífi..

Úti er grenjandi rigning og vindurinn rífur í.   Miðju barnabarnið er sjö ára í dag.  Pabbi er við það að fljúga út til London.  Mamma er að ná sér eftir síðustu flensu.  Og sambýlismaðurinn er í fullum blóma úti í móa.

Embla Sól skreytti daginn minn með veru sinni í mínu nærumhverfi....



Afmælissprengja dagsins....

..Megi þið öll lifa vel..


Laugardagsæfingin...


20 September 2014

meditate on your breath of life -tepokinn minn

hreyfing:   ..frá eldhúsborðinu að teikniborðinu mínu..

næring:  ..popp..

löngun:   ..bjór..

framkvæmd:  ..teiknað og málað..

Ég er að lesa Hallgrím Helgason   Konan við 1000°: Herbjörg María Björnsson segir frá.  og ég skemmti mér alveg konunglega.   

..hún veit ekki hvort hún er meira fyrir sníp eða snilla..
..greinilegt að hún hefur ekki látið lofta um lávuna lengi..

Þar sem stefnan er að lesa tvær bækur eftir hvern höfund er ég að velta því fyrir mér hvaða bók eftir hann ég eigi að lesa næst..  

Ég er svo þakklát fyrir öll tækifærin sem lífið hefur rétt mér...


Ég fæ til dæmis að:
..telja inn og út úr strætó núna á allra næstu dögum...
..vinna aukavinnu í nóvember í móttöku...
..æfa mig út í það endalausa að teikna, lita og mála við kjöraðstæður...
..búa með strák sem er endalaust að kenna mér eitthvað...


..vinna í sjálfri mér með aðstoð geggjað-gúrús...


og svo á ég vinkonu sem nennir endalaust að gera mig betri en ég er.....

16 September 2014

mistakahneigð..

hreyfing:   ..6.5 km ganga í tveimum hlutum..

næring:   ..hrísgrjón, linsur og grænmetið úr ísskápnum..

markmið:   ..skoða tvær bækur á viku..

draumur:   ..að eignast minn eiginn landskika..

vandræðalegt:   ..skeit pínulítið í brókina mína í lifrahreinsun Kollu grasalæknis..

upplifun:   ..var hluti af píkuhóp sem var í leiddri hugleiðslu..


Ég á ekki bót fyrir boruna á mér og ég sé ekki að það skipti miklu máli til eða frá um hvort ég lifi eða ei....   enda er ég oftast voða sátt ef það eru til hafragrjón þar sem ég er.

Kannski spurning um að ég fari fram á að fá hafragraut í næsu veislu sem ég mæti í þar sem ekkert er á borðstólum sem ég er tilbúin að borða.

ÉG ER HEILBRIGÐ, ÉG ER HAMINGJUSÖM, ÉG BLÓMSTRA....

..mig vantar te-græjur

14 September 2014

athöfn

Ég kveikti á kerti og setti indíána-tónlist í gang í tölvunni minni....

Síðan opnaði ég bók og las um hugmyndina ritlist.  
Þar stóð að hugsanlega hafi ritlistin lagt minni okkar í rúst þar sem engin ástæða er lengur til að muna eitt eða neitt.  Ég var voðalega fegin að það hefði ekkert með gáfnafar mitt að gera, heldur væri þetta alheimssannindi um megin þorra þeirra sem byggja heiminn.   Þar stóð líka að hugsanlega hefði þetta allt byrjað með kaupmönnum sem þurftu að merkja verð, magn og tegund vöru sem færi um þeirra hendur.   Eitthvað stóð um að nútíma-fræðingar segðu að ritlistin hefði orðið til vegna þarfa trúarleiðtoga og valdhafa til að halda völdum.  En það merkilegasta sem stóð þarna var samt að til væri þjóðflokkur sem vildi ekki skrifa niður sitt merkilegasta efni.

Í gær sat ég með gáfumenni sem sagði mér allt um konu Shelley áður en hún tók upp bók og skrifaði nokkrar línur um útlit og persónuleika samferðafólks okkar á kaffihúsinu sem við tilltum okkur inn á. Ég hefði ekki haft nokkra hugmynd um hver Shelley væri ef ekki væri fyrir bók sem er til á mínum vinnustað þar sem taldir er upp nokkrir menn sem skiptu sköpum í sögunni okkar.  Svo þetta var hið áhugaverðasta umræðuefni.


Sjálf opnaði ég teikniblokkina vegna ákafrar löngunnar til að læra að tengja saman huga og hönd...

11 September 2014

leið að hreinni hamingju..

hreyfing:  ..3,5 km. á leið í vinnu og 3 km á heimleiðinni..

næring:   ..hreint grænmeti og ekkert nema grænmeti..