25 August 2013

ég er skítug..

..en ég geri ráð fyrir að bæta úr því einhvern tíma fyrir morgunsárið.

Ég horfði á Silver linings playbook þökk sé þeirri sem ræður yfir mér á Mínum Vinnustað.  Það er ekkert meira um það að segja nema að mér fannst tíma mínum ekkert illa varið.


ég fyllilega nýt þess að horfa á ástardrama....

24 August 2013

ég ætlaði að synda til Viðeyjar..

..svo hafði ég engan til að synda með, var að passa börn og er ekki í þjálfun.

Aumingja ég.  Ég fór ekki vegna þess að eitthvað fyrir utan mig og mína ákvörðun kom í veg fyrir að ég gæti það.   Það firrir mig náttúrulega alveg frá því að þið hugsið að ég sé löt, geti það ekki eða sé svo menningarlega bæld að ég taki ekki þátt í samfélagsviðburðum.  Sem væri alveg hrikalegt fyrir þá mynd af mér sem ég vil að þið hafið trú á. 

Alveg fyrsta flokks afsökun fyrir að framkvæma ekki.  

Hér baka tveir tíu ára muffins.  Ég keyrði 14 ára til vinkonu en þær eru að fara að leika sér á menningarhátíð. Sex ára hamast við að hafa stjórn á köttum og hundum.  Kettir og hundar hamast við að komast undan þeirri sex ára og heimta athygli mína í formi næringar eða hreyfingar.   Sjálf er ég að hamast við að reyna að njóta helgarfrísins.

Mig langar í súkkulaðiköku......

21 August 2013

þurfalingur

..mig vantar stað til að drottna yfir.  Stað þar sem ég ræð hvort hillan er græn eða blá, á austur eða vestur vegg eða hátt eða lágt á veggnum.

Mig langar að kaupa mér íbúð....

Ég var að hlusta á útvarpið fyrr í dag og komst að því að ég tilheyri 20% heimsins eða þeim hluta þjóðarinnar sem finnst, að hár sem vex á líkama sé ekki endilega hár sem þarf að fjarðlægja af líkamanum.  Enfremur hrífst ég meira af róna-lúkkinu en fullskeggjuðum mönnum eða bónhæfum kjálkum.  

Ég er að verða með útdauðar skoðanir...

Ég horfði á the Importance of Being Earnest  og er í augnablikinu heilluð af Oscar Wilde.  
Ég reyndi að smakka á Napoleon Dynamite en ég er of þreytt til að halda athygli.enda tók ég við yfirráðum yfir fjórum köttum, þremur börnum, tveimur hundum, heilu húsi og tveimur bílum tímabundið svo auðvitað er ég þreytt.....

19 August 2013

Heilög heimska

..fáviska mín um mig sjálfa á sér örugglega óteljandi hliðstæður í henni veröld því bókin The Penguin Krishnamurti Reader fjallar um Sjálfsþekkingu.   Og ef gefin er út heil bók til að kenna manni að þekkja sig sjálfan hljóta fleirri að þjást af þessu en ég.

Svo ég er sátt en ég les þessa bók samt án afláts......

hreyfing:   ..sjósund..

næring:  ..sætar og gulrætur soðið í drasl með jukki úr krukku..

afrek:  ..ná í sex ára í Sumarskólann og deila með henni sjósundsferð..


Á rúminu mína liggja tvær bækur, Hugmyndir sem breyttu heiminum og Draw, how to master the art. Úr tölvunni ómar eitthvað sem ég næ ekki að halda þræði til að fylgjast með.  Og á borðinu liggja nokkur póstkort sem ættu að vera löngu farin frá mér.

Hugur minn með allar sínar hugsanir er bara farin í rúmið löngu á undan líkamanum....

zzzzzZzzZZZzzzzzzzZzzzzzzzzzz

Á morgun flyt ég inn á heimili vinkonu minnar í Mosó og þar verð ég fram yfir helgi.  Hún ætlar til Svíþjóðar að leita að kærustum handa okkur.  Ég vona að henni vegni vel.

Prjónaflíkasjósund - Neðanþvottakennsla - Matarboð - Hjólameðferðanámskeið -  Mamma - Lopapeysumaraþon - Garðræktunarumhugsun - Kveðjupartý Svíþjóðafaranna - Sjálfsþekkingaruppfræðsla 

Ég er búin að ganga út eitt skóparið mitt....

18 August 2013

ég drap geitung í gær

Aumingja geitungurinn gerði ekkert nema álpast inn í íbúð þar sem ég sat og trufla mig.   Núna er ég með samviskubit og get ekki þurrkað minninguna út úr huga mér.  Hjút stórt samviskubit, byggt á þeim grunni að allir hafi jafnan rétt til lífs, að það skemmi karmað að brjóta á öðrum og þeirri staðreynd að ég borðaði hann ekki.....


Blessuð sé minning hans......

17 August 2013

telst það þjófnaður að taka upp það sem maður sér í Fréttablaðinu...

UPPÁHALDS
.................................................



BÓK
blue2

DRYKKUR
vatn með mörgu..  vatn með sítrónu, vatn með ediki, vatn með hunangi, vatn með tepoka í, vatn blandað kaffi, vatn blandað möndlum, hnetum eða kókosi og þó fyrst og fremst ískalt óblandað vatn

HREYFING
ganga út um fjöll og fyrnindi

MATUR:
hafragrautur með öllu.. hafragrautur með hnetusmjöri, hafragrautur með chiafræjum, kakónibbum, gojiberjum og krækiberjum, hafragrautur með jarðaberjunum sem ég tíni ef eigin plöntum, hafragrautur með stöppuðum bönunum og þó fyrst og fremst hafragrautur borðaður undir berum himni.

VEITINGARHÚS
Grænn kostur og Gló 

VEFSÍÐA
wattch all tv series online for FREE

VERSLUN
útivöruverslanir og ikea

..ekki það að þessar upplýsingar skipti einhverju.  Ég bara varð að prufa að svara sjálfri mér einhverjum gáfulegum spurningum..

mighefuralltaflangaðtilaðsitafyrirsvörumafeinhverjutagienaldreifengiðóskumþaðsvo......

Ég settist niður og ætlaði að taka viðtal við mig sjálfa og birta hér.   Viðtal með nokkrum spurningum sem myndu segja í stuttu máli eitthvað markvert um það hver ég er.  Þá uppgvötaði ég að ég þekki mig ekkert og að ég veit lítið sem ekkert um persónuna mig.

Mér, til dæmis, datt til hugar að ein spurningin gæti verið ..hefur þú hringt í vælubílinn nýlega..  og sama hvað ég velti þessari spurningu fyrir mér gat ég alls ekki munað við hvaða aðstæður eða hvenær ég hringdi í hann síðast.   Alveg eins og ég hefði bara alls ekki undir neinum kringumstæðum hringt.  Sem náttúrulega væri helber lygi.  Og lygi er leiðinleg.  Svo þar flaug sú spurning langt út á sjó.

Þá hugsaði ég um það  ..hvenær ég gerði sjálfa mig að fífli síðast og hvernig..  en sama hvað ég gróf djúpt þar fann ég ekkert.  Og samt veit ég að ég er meistari í að gera mig að fífli.  Eða var og þótt það er nánast liðin tíð ætti að vera af nógu að taka af því sem áður var.  En EKKERT.  Ekki einu sinni pínu ljós kveiknaði á peru minninganna.

Það var sama hvað ég lét mér detta til hugar að spyrja sjálfa mig að  svo sem  ..tekur þú strætó.. -  ..ferðu hjá þér þegar þú hittir frægt fólk.. -  ..ertu hörundsár.. - ..hvern faðmaðir þú síðast..  og annað eftir því, þá annað hvort var allt slökkt eða svörin voru eins atkvæða orð.

Það sem kom mér samt mest á óvart með þessu viðtali mínu við mig sjálfa var að komast að því að ég gat ekki einu sinni talið upp þrjá kosti sem ég væri gædd.

Þá er nú fokið í flest skjól.....

15 August 2013

sál mín sökkar og allt mitt geð..

..þess vegna skrifa ég dagbók, blogga og sendi reglulega út montstatusa á FB,

hreyfing:   ...inn og út úr bíl í allan dag...

næring:   ...popp, hnetusmjörskex og hafragrautur...

menningartengt:   ...2GUNS baltasar kormáks...

afrek:   ...vann vinnuna mína og rúmlega það...

Ég er að hlusta á útvarpsleikhús.  Biblían liggur á borðinu og bíður eftir að ég fletti blaðsíðunum.  Og ég verð að fara að koma mér í rúm til að hafa orku til að hugsa allt sem ég þarf að hugsa á morgun á vinnustað.

Ég er alveg að tína hreyfigleði minni og finnst bara gott að sita í sófa og prjóna meðan ég hlusta á einhvern segja mér eitthvað úr tölvunni eða fletta bók.  

Ég er einhvern veginn ekki að gera mig núna.......

í verkefnavinnu...

Dóttir mín fór til Þýskalands og ég tók að mér að passa kjólana hennar og bjórinn....

Reyndar fylgdi með að ef pabbi barnsins hennar þyrfti aðstoð við að hugsa um barnið sitt þá mætti hann leita til mín.

Ég held að kjólarnir hennar verði hér enn þegar hún kemur heim aftur en ég leyfi mér að efast um bjórinn....

14 August 2013

Pabbi sagði að ég væri eins og lessa á sjötugsaldri....

Ég sagði:  ..og?..

Og ég meinti það.   Svo vaknaði einhver jafnræðisvitund upp í mér og ég fór að velta því fyrir mér hvort það fælust ekki einhverjir fordómar í þessum orðum hans.  Eins og hvort það væri eitthvað athugavert  við það að vera á sjötugsaldri eða þá að vera lessa.  Svo komst ég bara að þeirri niðurstöðu að hann væri að reyna að segja mér að honum fyndist ég ljót þar sem ég held eindregið að hann hafi ekki verið að bera á borð hrifningu sína á lessum né sjötugum konum.  Kannski einföldun á hugrenningum mínum en ég er fullkomlega sátt við útlit mitt, útlit sjötugra kvenna sem ég held að sé jafn breytilegt og útlit tvítugra kvenna og útlit kvenna sem kalla megi lessur sem ég er alls ekki viss um að sé neitt annað en útlit kvenna sem telja sig til gagnkynhneigðra hópsins.

En svo leið tíminn og konur dáðust að útliti mínu, strákarnir í vinnunni brostu í átt til mín og almenningur svona almennt (fólk í strætó og á förnum vegi) horfði stíft á mig.  Um mig fór að læðast grunur um að þetta fræ sem hann sáði í vitund minni væri kannski á sönnum grunni byggt.   Að útlit mitt væri alveg æpandi endurskinsmerki sem segði almenningi að ég væri gömul og að ég væri lessa.  Ég var eiginlega orðin skelfingulostin um að eina athyglin sem ég fengi í framtíðinni væri frá konum og að strákar myndu ganga framhjá mér án þess að taka eftir mér.  Og ég sem er sambandslaus....

Þá stoppaði mig maður til að segja mér að útlit mitt væri flott.....


Svo ég ætla að leyfa mér að halda áfram að vera ánægð með mig.....

Svo núna eru það bara fleirri lokkar með tilheyrandi götum og tattú á dagskrá.