15 May 2012

á rauðu ljósi

Ég er búin að eyða tíma mínum í að ætla á hnjúkinn, vera á hnjúknum og hafa verið algjör eðalgöngugarpur uppi  á hnjúknum sjálfum þegar mér var bent á það að ég hefði aldrei farið á neinn hnjúk.

Hvannadalshnúkur er þetta víst svo að ég biðst velvirðingar á að hafa verið að blekkja ykkur með endalausu bulli um hnjúk....

Ég veit hvað ég vil að dagurinn í dag fari í, ég veit hvað dagurinn í dag ætti að fara í en ég hef ekki hugmynd um hvernig hann mun svo fara þegar upp er staðið.   

Ég er búin að gleyma tilvist Æ-mannsins og amerísku peysunnar hans endanlega og hef snúið mér alfarið að ungbarnafataprjóni .   Svo er það lopapeysan mín, lopapilsið og allt hitt sem ég á óunnið.  Auk þess á ég margt eftir ólesið, óhorft og óhlustað.  

Smalinn er ónýtur.  Núna er það alveg staðfest fregn.  Hann fór til læknis og læknir sagði honum það sem ég gat svo sem  alveg sagt honum án þess að rukka hann fyrir orðin.   Hann Á að taka því rólega og skilgreiningin á því rólega er engin fjöll, ekkert hjól og engin hreyfing sem rífur vöðva.   Ég er svona rétt að velta því fyrir mér, Smali, hvort það að fara út að skjóta flokkist undir að hafa það rólegt......

Endomondo er svona app í nýja flotta símanum mínum sem á að halda utan um hjólahreyfigleði mína svo að ég sjái.  Endomondo segir mér hvaða dag ég hreyfi mig, klukkan hvað, hversu langt, á hvaða tíma, hversu hratt og hvers eðlis.   Endomondo segir alla daga að ég hreyfist bara eins og skjaldbaka.   Ég er alveg að kaupa það því Toppmaðurinn sagði að alvöru hjólafólk færi á 19 km hraða, almennilegt fólk á 15 og ég á 12.

Stefnan er sett á hjólreiðaferð í framtíð minni..............

1 comment:

  1. Þú þarft að fara að ná í þitt hjól, það var búið að lána lánshjólið á annan stað.

    H

    ReplyDelete

þú mátt tala hafrún