12 March 2013

að nenna eða nenna ekki

Ég er búin að lifa í fjöldamörg ár án þess að nenna að hafa skoðun á einu eða neinu.

Það er til dæmis ekki langt síðan ég var spurð að því í hundraðasta sinn hver væri uppáhalds tónlistamaðurinn minn.  Í upphafi þegar ég var spurð í 99sinn, svaraði ég: ..enginn.. og ég meinti það. Ég á engan uppáhalds tónlistamann.  Ég hlusta bara á tónlist án þess að heyra hana.  Tónlist er í mínum huga bara eitthvað sem er.  Tónlist lætur mér líða vel eða illa og allt þar á milli.  Mér er í raun sama úr hvaða barka hún kemur, hún þarf bara að tóna við sálina í hvert og eitt sinn.  Spyrjandinn vildi ekki trúa þessu svo hann spurði aftur og það var þá í þetta umrædda hundraðasta sinn.  Svo ég svaraði:  ..Bubbi.  Bubbi er minn uppáhalds tónlistamaður..  Fyrir svarið fékk ég hlátur, aðdróttanir og mikið fuss og svei á persónuna sem stendur á bak við nafnið svo ég ákvað að standa með því alla leið.

Það var þá sem ég áttaði mig á því að ég hef skoðanir á hinu og þessu.  Mér hefur bara í gegnum lífið ekki fundist taka því að standa með eigin skoðunum á einu eða neinu.  Í fyrsta lagi elska ég Bubba út af lífinu einn daginn og er sannfærð um að hann sé það eina rétta.  Næsta dag finnst mér svo kannski lítið sem ekkert í hann varið.   Í öðru lagi þekki ég fullt af fólki sem finnst bara fuss og svei um skoðanir annara og gera allt sem í þeirra valdi stendur til að vitka annað fólk og getur verið afskalplega þreytandi í að koma manni á rétta leið.  

Svo er það eitt, sem eiginlega gerir mig frákverfa við að halda á lofti eigin skoðunum, hvað það er mikið af fólki þarna úti sem verður fúlt og lítur á það sem árás á eigin sál ef einn neitar að falla að hópnum og hefur aðra sýn á umræðuefninu.

Í kvöld var eitt af þessum skiptum sem skoðanir mínar stigu á tærnar á nærstöddum.  Ég neitaði upphátt að tala illa um ábyrgðaraðila gönguhóps sem gekk á fjall og missti einn af hópnum endanlega úr liðinu vegna slyss.  Ég beinlínis krafðist þess að ekki væru gefnar út stórar yfirlýsingar á staðnum um ábyrgðarleysi þeirra án þess að vera með haldgóðar frásagnir, frá fólkinu sem virkilega var í þessari göngu, um atburðarásina í heild. 

Mér leiðist eldhúsborðsumræður þar sem dæmt er um lélegheits einhvers sem ekki getur varið sig vegna fjarveru.

Ég get aftur á móti ekki, hvernig sem ég rembist, komið mér upp vitrænum stjórnmálaskoðunum...

Spyrillinn minn, sá sem lét sér varða tónlistasmekk minn á sínum tíma, sýndi mér samt fram á að maður getur stundum grætt á því að hafa skoðun, því eftir að hann vissi að ég var Bubba-lingur þá spilaði hann oft og iðulega lögin hans í nærveru minni þar sem hann sat eða stóð með gítarinn...

3 comments:

  1. Stundum er það ábyrgðarhlutur að halda sínum skoðunum út af fyrir sig.
    Þessi tátroðsla þín í gær hefur kannski fengið einhvern viðstaddan til að stíga niður úr hásæti eldhúsdómarans og hugsa á gagnsrýninn hátt í stað þess að fordæma.
    Og þá er heimurinn sennilega örlítið betri fyrir vikið.
    Farðu samt varlega nálægt mér áfram, tærnar á mér eru svo fj. viðkvæmar.

    ReplyDelete
  2. PS
    Bubbi sökkar.

    ReplyDelete
  3. Bubbi sökkar sko ekki neitt og þú veist það....

    ReplyDelete

þú mátt tala hafrún