29 June 2012

Hol jörð

Ég velti fyrir mér... möguleikunum á holum heimi... með hvaða hugafari skuli lesa biblíuna og hvort eitthvað sé að hjá mér, fyrst ég er farin að skella gleraugunum í uppþvottavélina.

Mamma mín og litla systir eru farnar að heiman, held ég....   Pabbi er á ferðalagi....  og vinkonur mínar eru uppteknar af lífinu.   Svo hér sit ég ein og bíð eftir að börnin mín hafi tíma til að leika við mig.

Æ-maðurinn er búin að gleyma tilvist minni... Toppmaðurinn er upptekin af ríðimannaleikum í Víðidal...  Nördið nennir engu og ArtDan er löngu hættur að hafa gaman af sömu hlutum og ég.

Sjósundsfélagið er að synda vítt og breytt um Stykkishólm....   FallegaFólkið er í árlegri útilegu í Vinaminni....  og sumarið er tíminn eða eitthvað álíka þar sem ég finn ekkert sem getur botnað þessa setningu.

En svo eiga Vinnufélagar planaða hjólaferð á sunnudag sem á að enda á kaffihúsi...  hluti þeirra eða þeir sem tengjast HjúkkunniSemStalNafninuMínu ætla að hittast í Húsdýragarðinum á mánudag... og ég er með fullan hatt af verkefnum sem ég verð að leysa fyrir átta á þriðjudagsmorgun.

Megi ég blómstra.....

28 June 2012

í þungum þönkum.

..eða í raun trufluð með hringingu og nokkrum orðum sem vöktu upp hugsanaflæði.

lopapeysa...  börnin mín... uppeldi þeirra... líf mitt...  barnabörn... tengdabörn... foreldrar... ættingjar...  ég sjálf.

Það getur verið svo ruglingslegt að vera til.

25 June 2012

uss.... ég ætla að sofa

Lífstölur:   T=112/60  og  P=54    

Þyngd:   75,3 kíló

Hreyfing:   ..ætla að skríða upp í rúm og sofa eins og engin sé morgundagurinn, gærdagurinn eða vikan öll..

Næring:   avakadó

Ég er eitthvað að missa mig í yfirgengilega þreytu sem veldur vöntun á brosi á andlitið, gleðisnauðum hugsunum í hausnum og líkamlegri vangetu til að hreyfa útlimi í leik eða starfi.   Hugsanlega hefur það eitthvað með það að gera að ég er búin að vinna stanslaust í margar, margar vikur ef frá er talinn dagurinn sem ég hjólaði á Þingvelli (sunnudaginn 10.júní).

jan welzl er frá...  núna er það karen blixen...

24 June 2012

skammbyssulöngun

ég gleymdi skóbustunarsettinu heima þegar ég fór að hitta geirann áðan.

Slapp eiginlega ódýrt þar....

ArtDan hringdi og plantaði fræjum.  Núna er bara að skoða það mál gaumgæfilega.  Hann er komin með skotbakteríuna á það stig að hann má kaupa sér skotvopn svo hugsanlega kannski eigum við eftir að fara saman út að leika á næstunni.

Maginn á mér er komin með kvíðakast dauðans yfir því hvað ég eigi að taka með mér í nesti sem grænmetisæta inn á fjöll í sumar.  Ekki nenni ég að flytja með mér tonn af grænmeti þar sem ég þarf að ganga með það á bakinu í um fjörutíu mínútna gang frá bíl að húsi.  En hafragrautur, pasta og baunaréttir eru efst á áætlun.

Mig langar í revolver 22cal.....

23 June 2012

lestur

....Það sat kona með mér í dag með kaffibollann minn á milli handanna, með lokuð augun og þuldi upp fyrir mig lýsingu á manni sem hún sagði að ég væri að umgangast.

Allt sem hún sagði um þann mann var satt.....

En svo var líka einhver fallegur, myndalegur maður með stórar hendur við jaðar lífs míns.   Hún sagði að hann gengi á fjöll, væri útivistamaður mikill en hann borðaði kjöt og trúlega mikið af því.

Þar fór draumurinn um vegatarian sálufélaga í gegnum lífið......

Ég sat með GunnaGötustrák og Toppmanninum við rauðvínsdrykkju í gær...   í dag vann ég...

Ég les um mann sem stóð þar sem veröldin lítur út fyrir að vera kúpt, sjóndeildarhringurinn virkar ofar en hann er og sólinn rúllar á jaðrinum allan sólarhringinn án þess að setjast.  Þessi tiltekni maður býr þar sem allir verða að vera sjálfum sér næstir og að horfa upp á nágranna, vin eða félaga deyja er algengara en heimsókn. Hann segir frá gullgreftri, veiðiferðum og illalyktandi eskimóum.   Hann segir frá landslagi, veðrabrigðum og sérvitringum þannig að það virðist ljóslifandi.   Hann segir sögu sem ég hef bara virkilega mikin áhuga á að hlusta á.

Æ-Maðurinn er æði.  Bara svo að það sé á hreinu þá skulda ég þessum manni feitt.  Raunar skulda ég flestum feitt sem ég hef átt samleið með í gegnum lífið því ég á svo auðvelt með að þiggja það sem að mér er rétt. Æ-Maðurinn er núna búin að sjá til þess að ég hef nóg að lesa út þetta líf.

Ég skulda honum eiginlega afsökunarbeiðni......

21 June 2012

sjávarsaltslykt

.. mér er kalt og ég lykta af sjó.

ég er sjóræningi og er að hamast við að deila.   Umhverfið er framandi en ég verð fljót að venjast og brátt verð ég óstöðvandi.   Ég sé fyrir mér breiðurnar af ólesnum bókum....   þáttum.... bíómyndum og hljóðbókum.  

Ég fékk heimsókn í dag.....  


Hún þvoði húsið mitt að utan...  klifraði upp í bókahillurnar til að ná sér í tréblóm sem liggja þar... lokaði sig inni í geymslu með ennisljósið mitt...  fór í gönguför með regnhlíf í kvöldsólinni...  skellti sér í sjóinn áður en allir aðrir því hún kunni ekki að bíða og var búin að yfirgefa mig áður en varðeldurinn var kveiktur.

sumarsólstöður....

það var bankað upp á

..á Mínum Vinnustað.

Edgar Cayce hljómar eins og talaður út úr mínu hjarta í grófu yfirliti.   Svo fer hann að tala um Jesú.

Hugur minn hringsnýst alla daga þar sem höfuðið kallar á eitt og hjartað annað.   Ég er ekki frá því að hægri táin hafi aðra skoðun en sú vinstri.  Ég vil skjóta, ég við teikna, ég vil veiða og ég vil lesa allar þessar óteljandi bækur sem ég á ólesnar.  Ég vil líka vinna, gera allt fyrir alla, hugsa um heimili og heimsækja mitt fólk.

Ég söng fyrir eina gamla konu í dag með öðrum gömlum konum og ég var svo hamingjusöm að vera jafngömul og þær allar og að hafa haft tækifæri til að eiga líf með þeim allan þennan tíma.

19 June 2012

fæða guðanna

..sækir á mig núna.

Annars er það bara Biblían til aflestrar, Táknin í Málinu og Heilsu Drykkir.


Ég er að missa mig í skotgleðinni, veiðistöngin er kominn upp á borð og svaml í vatni í allri sinni mynd er efst á vinsældarlistanum.

Þar sem Toppmaðurinn neitar að leika við mig fyrr en upp úr miðjum Júlí verðum við að fara í Þingvallavatn áður en ég fer Nörd.....

Ræktun í garðinum í pottum, kartöflur í skika inn í landi og hjólið mitt.

Núna ætla ég sko að lána Æ-Manninum Mine Kindle og vonast til þess að hann verði fullur af áhugaverðum bókmenntum þegar ég fæ hann til baka.

Ég fór eftir skotæfingu að leika mér heima hjá Heilsuhvíslaranum.....


Þar á ég kettling....


18 June 2012

súrefnisskortur í heila

..kunn víst vera hættulegur.    Þess vegna verð ég að anda magann fullan af lofti, brjóstkassann, aftur í hrygg og líka í hálsinn.  Þá kunn víst vera líkur á að súrefnismettað loft leiki um sellurnar meðan ég er á 6 metra dýpi að skjóta dýr...

Ástarsagan um Taj Mahal er eitthvað sem vakti áhuga minn í gær.....  svo ég eyddi tíma í að fletta bókum, spyrja spurninga og gúgla.   Því sem ég kemst næst var að Mógúlkeisari lét byggja á 17ándu öld þetta eitt af átta undrum veraldar, til minningar um persneska eiginkonu sína.  Keisari þessi fylltist víst gríðalegri sorg þegar eiginkonan lést af barnsförum þegar 14ánda barnið þeirra fæddist.  Hann var ekki viðstaddur en fékk þrjár leiðbeiningar(fyrirmæli)  sem hún skildi eftir áður en hún hætti að anda.  Þessi fyrirmæli voru;
 1. að hann skildi ekki giftast aftur.
 2. að hann skildi ekki gera upp á milli barna þeirra. 
 3. að hann ætti að byggja minnisvarða um hana.  

Aumingja maðurin varð svo sorgmæddur að hann lokaði sig inni án matar og drykkjar í heila viku.  Þegar hann svo kom út aftur var hárið á honum orðið algrátt.   Hann hófst handa við byggingu sem tók 23 ár um það bil en á svipuðum tíma og byggingu lýkur, steypa synir hans honum af stóli og setja í stofufangelsi í höllinni.  Þar sat hann svo og horfði yfir á Tah Mahal í nær 20 ár.

ég er vinur minn...  

17 June 2012

safapressumálefni

fræðileg úttekt hefur leitt í ljós að fræðilegar úttektir leiða aldrei neitt í ljós.    

Fræðilegar úttektir skilja eftir fleiri ósvaraðar spurningar en svör sem þær gefa..... en þær skilja tvímælalaust eftir sig gleði og ánægju eftir vel unnið verk.


Ég kláraði að horfa á Out of Africa...  það áhorf fékk mig til að hugsa um stráka og væla
ég horfði líka á Karl Pilkington ferðast í Indlandi og skoða Taj Mahal...   það áhorf fékk mig til að langa til að teikna

Núna ætla ég að fletta Stitches a Memoir eftir David Small og sjá hvað verður hvernig hvenær eða eitthvað...

16 June 2012

ef....

Veit samt ekki hvort þetta ef skipti mig einhverju máli lengur.

Sál mín hefur svo stækkað út úr skinninu.  Ég geri mér alltaf betur og betur grein fyrir hvað er og hvað er ekki.....  stundum alla vega.   

Mig langar í skammbyssu.
Mig langar í kayak.
Mig langar til útlanda.
Mig langar að vera að gera allt sem ég er að gera núna og gott betur en það.....

Núna set ég stefnuna á að taka veiðistöngina úr pokanum, setja hana saman og kasta öngli, ormi, spún eða flugu út í vatn.   Langar samt geigvænlega út á rúmsjó með stöng.

hefði sko verið vel til í að hafa Welzl sem fyrirmynd mína löngu fyrr,,,,,,,

14 June 2012

óræður titill

Í dag vann ég lítið.....   minna en ekki neitt eiginlega.

Eitt af því fáa sem ég gerði var að athuga hvers vegna sjúkraliðarnir á minni deild fái ekki greidda fæðispeninga og hvort LSH sé stætt á því.

Svo fór ég í Röstina til að fjárfesta í riffiltösku til að geta mætt með riffilinn á skotsvæði.   Það er víst ólöglegt að veifa skotvopnum á almannafæri.

Á Saffran í Glæsibæ hitti ég vinkonu mína sem einu sinni gætti Múlaskála en gerir ekki enn.  Við töluðum um bútasaum, teikningar og vinnu.

Á skotsvæði SR lét ég karlana algjörlega tala mig inn á að vera félagsmaður félagsins.  Ég var bara nokkuð hittin á 25 metra færi.  Eftir það fór hittni mín að láta á sjá.

Svo fórum við skotfélagsmenn malagryfjanna á Saffran í Glæsibæ.


Þar var einhver búin að merkja mér borð...

12 June 2012

kartöfluræktun

Ég fékk mér garð með hafrúni, fyllti hann með illa spíruðu útsæði og sit núna og velti því fyrir mér hver komi til með að borða þessar kartöflur.....

..ekki verður það ég eða hafrún svo mikið er víst..

Ég hjólaði á Þingvelli með vinnufélögum á sunnudag og heim á mánudag.   Við tjölduðum, grilluðum og rugluðum í hvort öðru fram yfir miðnætti.  

..svo fórum við að sofa..

Það kom mér á óvart hvað þetta var lítið mál.   Lítið mál að hjóla svona í vegarkantinum....  lítið mál að hjóla upp og niður hóla og hæðir.... lítið mál að hjóla og hjóla og hjóla nánast endalaust eitthvað áfram.

..bara lítið mál..

Auðvitað var þetta erfitt.....   mótvindur, flöt dekk, lélegir gírar, hnakkar að nuddast við....... hmm...  líkamann og hiti, sviti og sölt tár...  
The Lady, DeildarstýrannNýja, Krúttbangsinn, the Meistari og Æ-maðurinn voru þeir sem nenntu að hreyfa sig eða bara gáfu sér tíma til að vera með.   

..yndislegt fólk..

Ég er að lesa ísabismarck bjarnaræta og það kemur mér á óvart hvað mér finnst hún skemmtileg.

..Svo eru bara skotæfingar framundan..

08 June 2012

hér er heitt

svo heitt að ég svitna í kyrrstöðu.

Stundum geri ég eitthvað.....   stundum geri ég ekki neitt.....   í dag fór ég eftir vinnu að stinga upp kartöflugarðinn minn sem er staðsettur inn í landi. 


Í gær var ég bara á vinnustað.   Fyrst við að kenna fólki að leggja fólk upp í rúm sem vil ekki undir neinum kringumstæðum leggjast sjálft upp í rúm.  Og svo seinna um kvöldið við að reikna út hver ætti að vinna hvenær....


daginn á undan þeim degi......


horfði ég á nýjustu krúttsprengjuna anda....

Svo sat ég og hugsaði um það af hverju engin gæfi mér blóm og hvers vegna ég keypti mér þá ekki bara blóm sjálf.... 


ég er ekki enn búin að komast að neinni niðurstöðu........



06 June 2012

06.06.

...Er uppáhalds dagurinn minn flest ár.  

Stay sharp, feel young, and thing bright!  segir Lumosity í tilefni dagsins um leið og þeir segja;  ..Happy Birthday,  baraella..

Postcrossing segir: ..Happy Birthday!  Have fun!..

Vinir mínir segja flestir á facebook, voxer eða í símanum:  ..til hamingju með daginn.. eða eitthvað álíka dapurlegt.  

Það er ekki dagurinn sem slíkur sem skiptir máli heldur sú staðreynd að ÉG var fædd þennan dag fyrir mörgum, mörgum, mörgum árum síðan og ég hef elst og elst og verð alltaf eldri og eldri og bráðum einhvern tíma seinna verð ég bara ekki eldri.

Þangað til finnst mér gott að til er fólk sem segði:  til hamingju með aldurinn, afmælið, árin þín öll eða þá gæfi mér krot á blað í formi myndar, ljóðs, sögu eða nafn;  á kvikmynd til að horfa á, lag til að hlusta á, bók til að lesa eða slóð til að skoða.

Ég er samt svo þakklát í hjarta mínu fyrir ykkur öll sem hafið sagt eitthvað, hringt, send skilaboð eða skrifað á FB í dag.  Þakklát fyrir að þið tókuð eftir mér og nenntuð að hafa fyrir því að segja eitthvað við mig hvers eðlis sem það var.....

Ég er formlega komin á SEXtugsaldurinn....


05 June 2012

ömmukona

..mér líst vel á þetta orð.

Ég fjárfesti í kilju-biblíu áðan um leið og ég verslaði mér bók hjá eymundson.  Fjárfesti líka í rauðrófum og kúrbítum um leið og ég náði mér í vatn til að drekka.

Læknirinn sagði að ég væri rugluð.   Svo skoðaði hann mig og sagði að ef allir væru eins hraustir og ég hefði hann ekkert að gera.   Hann gerði mér samt þann greiða að skoða b12 búskap minn, kreatín og ferratín með því að merkja við á blaði sem ég má fara með til hornfirsku-blóðsugunnar í Mjóddinni.   

hafrún er komin í bæinn og búin að taka af mér bílinn.  Ég er náttúrulega glöð yfir að hafa hana hér en jafnframt  er ég fúl yfir að missa bílinn.   Ég var alveg búin að venjast þessu keyra-hvert-sem-ég-vil-þegar-ég-vil dæmi.

"Be hole, be dust, be dream, be wind
be night, be dark, be wish, be mind.
Now slip, now slide, now move unseen,
above, beneath, betwixt, between.

Ég ætla að borða með fólki í kvöld....

03 June 2012

03.06.'12

Ég er komin á þann aldur að vera byrjuð að telja afkomendur mína.....

EINN.........

...hættu að telja þetta er ég.      nei, nei... það má alveg telja upp á meira en það...  ég er búin að sá mér.

Nýjasta krílið fæddist í morgun og var 16 merkur og 54 sentímetrar.  Ég fékk að stinga af úr vinnu til að virða hana fyrir mér og máta við mig.   Ég sé ekki betur en hún passi eins og flís við rass..


..og þannig leið mér.


Mér finnst hún algjör ella eins og allar hinar ellurnar.....  (emma, emír og emelía)

02 June 2012

veröld mín...

...er ekki á nokkurn hátt verri en þín þótt þær séu augljóslega ranghvelfan af hvor annarri.

Ég eyddi fyrri part dagsins í líkamlega snertingu.   Hluti af sjö einstaklingum lék sér að útlimum mínum meira og minni milli þess sem við drukkum kaffi og sleiktum sólina....
Seinni partur dagsins fór hins vegar í að þiggja laun fyrir að standa spert þrátt fyrir fljúgandi hráka og láta sér fátt um finnast þótt uppnefni, glamrandi tennur og  aðskotahlutir í hendi ógnuðu sál og líkama.

Ég brosti enn af lífsgleði þegar degi tók að halla.....

Ég plana hjólaferð.   Langa hjólaferð.....  Ég plana líka allt hitt sem mig langar að gera.  Næst á dagskrá er að læra fríköfun, rækta garðinn sinn og taka á móti nýju barnabarni.

Ég sat fyrir stuttu úti á svölum í annara manns landi þétt upp við líkama annarar veru með bók í kjöltunni sem við lásum upp úr til skiptist og ég emjaði úr hlátri yfir dásamlegum setningum.  

Ég skrapp líka aðeins inn í einskis manns lands með þessari sömu veru til að þefa af veröld sem ekki er mín.

Ferlega er ég fegin að vera ég...