31 March 2012

bleikt

Ég er að missa mig í apríkósuáti núna.....

Annars var lífið þannig að ég kom við í Erninum til að athuga hvort þeir væru nokkuð búnir að taka hjólið sem ég var með í láni í pant þar sem ég var ekki búin að sækja það.   (Þeir áskila sér réttindum til að eiga hjól sem ekki eru sótt innan þriggja mánaða úr viðgerð hjá þeim).   Strákarnir á staðnum voru fljótir að skella fram þeirri staðreynd að hjólið væri þeirra ef það væri á staðnum og að hjólið væri löngu farið í ruslið eða eitthvað.  Eftir að ég var búin að bera mig aumlega og elta einn þeirra á röndum tvær ferðir um svæðið, fann hann hjólið og ákvað að það mætti vera mitt.   Ég brá auðvitað báðum höndum utan um hann þar sem hann stóð í sakleysi sínu og faðmaði hann þétt....


Svo núna er stofan mín full af hjóli......

Húseigendur eru fluttir og nýi leigjandinn fluttur inn.  Áður en þau fluttu, bankaði gaurinn á hurðina og færði mér lykil af íbúðinni sem tilheyrir mér.   Hann stóð lengi og góndi á mig eins og hann hefði aldrei séð konu í náttkjól með kodda í fanginu seinni part dags.  Það var ekki laust við að ég finndi fyrir feimni.  Svo þegar ég flissaði feimnislega og sagði: .. er allt í lagi?..  hristi hann af sér gónið og sagði:  ..já, já ég var bara að spá í því að þetta er síðasti lykillinn sem ég máta og hann passar..  

...what ever...

Í gærkvöldi aftur á móti kom gellan niður og rétti mér línbunka um leið og hún sagði:  ..gardínur handa þér, allt í stíl..

Ég er ekki frá því að þetta sé svolítið bleikt....

Í gær fór ég í sjóinn, gekk í Esjunni, sveik Toppmanninn um samveru við mig og talaði í símann um Gunnar Nelson,  Doug Stanhope og Louis ck's Eddie Megavideo.

Í dag spái ég í því sem ég lærði í vikunni og hvort eitthvað vit sé í því......


Svo er það spurning hvort Smalinn nái í mig eða ekki....


25 March 2012

bull í poka

Ég eyddi deginum í sápukúlublástur, knúsutíma og að fara í félagsskap við eina fjögurra ára í fermingaveislu...

Augnablik dagsins var þegar ég uppgvötaði að ég hefði tínt þessari fjögurra ára í Hagkaup á leið í fermingarveisluna.   Á ákveðnum tímapunkti stóð mér eiginlega ekki á sama.   Hún sagði aftur á móti, eftir að hún var fundin:  ..en þetta var allt í lagi ég var bara hér..  

já...  merkilegt að ég skyldi halda að hún væri annars staðar.

Hin ljúfa helgi er liðin með deildarsamveru, smábarnaspjalli og hugrenningum um lífið.   Vikan framundan er æði spennandi....  Sú Færeyska ætlar að kíkja í kaffi, matarboð er hjá hinum fjögur fræknu, ég ætla að læra um nálgun árasagjarna einstaklinga og kannski, bara kannski ef veður leyfir, fer ég að leika mér með Æ-manninum....   

Svo fæ ég náttúrulega að kenna, vinna á Mínum Vinnustað og huga að tiltekt í hreiðri mínu....

22 March 2012

vinnugleði

Í morgun þegar ég kom út var ég ekki að nenna að setja annan fótinn fram fyrir hinn svo ég stóð bara kyrr á stoppustöðinni þar til leið 17 lét sjá sig....

Vinnudagurinn var svona einn af þessum þar sem ég leit upp um hálf tvö og sagði:  ..fyrirgefðu kæra aðstoðardeildarstýra en ég má bara ekki vera að því að fara heim....  ég bara VERÐ að vera aðeins lengur,  mér þykir það leitt..   Hún sagði ekkert.  Núna vona ég bara að hún borgi mér laun fyrir þessar 90 mínútur sem ég var fram yfir yfirlýstann vinnutíma....

Vinkona mín sótti mig á leið sinni heim úr Háskólanum, gaf mér að borða, kaffi eftir átið og leyfði mér svo að vinna í pappírum hjá sér fram eftir degi.    Við ræddum reikninga, skattskil, viktun og matarátraskanir og komumst að þeirri niðurstöðu að það væri eitthvað sem við hefðum enn stjórn á fyrst við getum rætt vandamálið af viti áður en við dettum í það.... eða þannig....

Þessi býr heima hjá vinkonu minni.  Ég virðist vera gjörn á að velja mér vinkonur sem hafa einhverja ofurást á köttum heimsins og hleypa þeim gjarnan gjörókunnugum inn á heimili sín þar sem þeir fá fullt leyfi til að hreiðra um sig af eigin geðþótta og löngun.

 Ég man ekki hvað hann heitir en hann virðist ekki geta látið mig í friði.....

21 March 2012

ári eldri en fyrir ári síðan...

Ég fór í afmælisveislu í gær.  Ein af vinkonum mínum hélt upp á daginn sinn með fiskiáti og átti smá grænmetissúpuafgang í ísskápnum sem ég fékk að gæða mér á.

Reyndar bakaði hún aldrei þessu vant handa gestum og gangandi...

En ég var ekki svo heppin að baksturinn snérist um eitthvað af viti en þar sem henni þykir vænt um mig og vildi virkilega eiga eitthvað mér bjóðandi, fjárfesti hún í fjalli af þessum orkustöngum...

Ég fór södd heim.  Eiginlega saddari en verið hefur í marga daga þar sem ég er afskaplega löt að gera nokkurn skapaðan hlut meðan ég þykist vera að jafna mig eftir flensu..

Hið ljúfa líf.....

18 March 2012

markmiðasetningar

Þetta er einn af þessu mögnuðu dögum sem hefði getað farið öðruvísi....    

Ég vaknaði í morgun eins og marga aðra morgna.  Einhvern veginn full af trega yfir því sem ekki er og ætlaði varla að ná mér upp af koddanum vegna fullvissu minnar um að ég er veik.
Hóstinn snarkaði í berkjunum, skrifborðið er að verða ævintýralega tómt og óhreinaþvottahrúgaheimilisins í sögulegu lágmarki þegar hafrún mætti á svæðið.
Hún fór að telja peningana mína, ég að montast yfir nýju myndavélinni minni og úti sótti veturinn í sig veðrið eða eitthvað. Við alla vega fórum, eins og til stóð, á Borgarbókasafnið þegar við vorum tilbúnar.

Stutta útgáfan er að Njóla hitti okkur í Hafnarhúsinu þar sem ég borðaði bragðsterka súpu kokksins og hún tók að sér að vera leiðbeinandi minn....   snilld.   Ég ákvað daglegarathafnir aprílmánuðar, íslenskan var aðeins spekúleruð og framvegis kem ég til með að horfa á andur á tjörninni,  ég er samt ekki alveg búin að átta mig á þessari beygingarvisku, við skoðuðum Gróttuvitann og ég er sko alveg við það að læra að anda inn um nefið og út um munninn.

Hafmeyjan hringdi svo og lét mig vita að ég væri að fara á Gyðjunámskeið í haust. Það er klárlega að gera sig fyrir mig því ég finn sterkt fyrir gyðjuna sem berst um innan í mér og vil fá að koma upp á yfirborðið.

Annars er það rauðrófupottréttur, engiferrót í heitu vatni og dvd í kvöld.........

15 March 2012

heimsókn

Ég fékk aðstoð við opnun á fyrstu tveimur kössunum með eldhúsdótinu.....   Svo er ég bara að vona að afgangurinn gerist af sjálfu sér.

Ég fékk líka aðstoð við að hugsa um peysu Æ-mannsins sem átti að klárast í febrúar.  Áætlun hefur risið um að hún klárist í mars.  Mér finnst það gott plan.

Ég fékk líka aðstoð við að komast inn í væntanlegt verkefni við að gefa nemendum einkunn fyrir ritgerð um bók og Ritgerðina.

Auk þess,  held ég að ég eigi orðið einn sokk................  

14 March 2012

rafretta

spínat
Í gær uppgvötaði ég að ég yrði víst að borða þótt ég væri veik og þar sem ég var nýbúin að vera að ræða það við strák hvað litir í mat skipta miklu máli fyrir heilsuna þorði ég ekki annað en að hafa minn mat litsterkann og það þótt ég sé ekki komin með það á hreint á hvern hátt það skiptir máli...
Nemendur mínir hringja í mig í tuga tali núna og ég urra á þá í símann:  ég nenni ekki að tala við þig næstu tvo daga,  ég er veik..  og svo skelli ég á.   Já, ég er grimmur kennari.  Málið er að einhverra hluta vegna svöruðu þau ekki heimaprófinu rétt.  Og ég sendi þeim póst þess eðlis áður en slökknaði á mér á mánudagskvöldi.

rafrettan
Ég komst fram í stofu í dag...  Þar sem ég mátaði sófann nokkuð stíft fram eftir degi.
Núna get ég hlustað á Tvíhöfða, lesið  tvær bækur Karls Pilkingstons á rafrænu formi og hugsað um nýjasta nýtt í formi síkarettuhækju af þekkingu því ég er búin að snerta eina.
Það er gott að vera upplýstur einstaklingur....  Þetta sem sagt gengur fyrir rafhlöðum og þegar maður sýgur að sér lýsist glóðin framan á upp eins og gerist hjá alvöru síkarettueintaki og svo andar maður frá sér reyk.  Svo rauverulegum reyk að hann liðast enn um loftið í töluverðan tíma eftir útblásturinn.

Spurning um að gefa þeim sem manni þykir vænt um svona grip svona áður en þeir drepa sig á þessari vitleysu....
                                                                                                                                         

13 March 2012

lassaruss

Ég hringdi í Bardömuna mína og bað hana að ná í mig upp í skóla þar sem ég taldi mér trú um að ég gæti ekki gengið heim né að ég  hefði orku í það að standa á stoppustöð eftir stoppustöð til að komast heim.  Hún sagði:   ..nei..

Ég var svo fúl að ég skellti á hana og bjargaði mér á annan hátt.....

Mér líður skítt...

Nemendur mínir eru nánast allir fallnir á heimaprófinu sem segir meira um lélaga færni mína en þeirra...

Og vinkona mín er bara með einhver leiðindi í niðurstöðum, finna bækur og þurfa í raun á minni vinnu að halda NÚNA....

Myndin er langt frá því að lýsa ástandi mínu á raunhæfan hátt...

11 March 2012

hafrún..

Ég fékk aðstoð við að bletta inni í skápunum.   Ég fékk líka aðstoð við að ná í eldhúsáhaldakassana mína úr geymslu.  Nú vantar mig bara aðstoð við að þrífa innan úr skápunum, upp úr kössunum og restina af heimilinu...

Annars er ég bara að blogga hér núna til að láta þig vita hafrún að ég er komin með flensu....  ég ætla samt í vinnu á morgun, næsta dag og þar næsta en þess á milli kem ég til með að liggja í veikindarmóki.


Add caption
Add caption
Ég jeppaðist á laugardag...   henti mér til sunds í Laugarvatnið...   lá í heitu pottunum hjá Laugarvatn Fontana, var boðið í glas, súpu og að njóta mín í gufu..

Svo fór ég heim með Erlu og hún eldaði Tófú...  Helma kom og þá var ég orðin veik og lá í óráði undir teppi...  við spáðum í spilin og fórum svo í bíó og Erla keyrði mér heim..

Núna fór lífið ekki eins og það átti að fara....  ég ætlaði sko að vera að gera eitthvað annað en að engjast sundur og saman af hósta...

Ég var samt búin að biðja strák um að koma og máta peysu og hann gerði það....  ég fékk gott tækifæri til að hósta hann í kaf meðan hann gaf sér tíma til að taka einn leik við mig. 

nice náungi..... 




07 March 2012

tilraun til tjáningar


ég leitaði og leitaði en fann ekki orð dagsins míns......   

það sem ég fann snérist um:
- að varðveita minninguna því athöfnin sjálf gerist aldrei aftur,  
- að  hlustaðu á sjálfa þig, lestu á milli línanna og horfðu lengi og vel á það sem fyrir augu ber.....   
- að áfengi hefur áhrif á taugarnar til langframa

og

- að ósýnilegu börnin hafa áhrif á börnin okkar

Líklega verð ég mjög gömul, mjög leiðinleg og mjög löt.   En bara ef ég legg mig fram við það.....

06 March 2012

skilningsleysi

Sumt skil ég verr en annað.   Sumt á ég líka verr með að sætta mig við en annað.  

Miðað við að ég er einstaklingur sem stingur sig á nál, verður að eyða sex mánuðum í 'óvissu' um afdrif málsins og sættir sig fullkomlega við að takast þá bara á við það, þegar eða ef þar að kemur, án kvíða, stress eða hræðslu við komandi tíma, þá er ég ekki alveg að skilja, afhverju þetta sáttleysi liggur í minni sál.

Ég vil hærri laun....

Einu sinni var strákur.  Strákur með tagl....  svo var allt í einu enginn strákur með tagl.   Það var líka einu sinni strákur í bleikum slopp....  svo, allt í einu var enginn strákur í bleikum slopp.  Bara allt fullt af stelpum í bleikum sloppum...   Það var líka einu sinni strákur sem fór í sjóinn...  en svo var bara allt í einu kalt og enginn strákur sem fór í sjóinn.   Eða alla vega ekki strákurinn sem var vanur að fara í sjóinn þaðan sem þessi strákur fór í sjóinn.

Væntanlegur laugardagur verður væntanlega snilldar laugardagur ef við stelpurnar stöndum við það að fara að synda á Laugavatni, borða saman, spá í spil og fara í bíó....


Ég keyrði í Borgarfjörð til að kenna fólki sem kann, eitthvað sem ég kann varla.   

Næst ætla ég að taka með mér sundföt og skella mér í sundlaugina á þessum ókunnuga stað innan um ókunnugt fólk.


Ég held það sé tímabært að setja sér það markmið að fara ofan í hverja einustu sundlaug, pott eða náttúrulaug Íslands.....               
 
 xxxxxxxxxxxxxxxxxxxxxxxxxxxxxxxxxxxx

05 March 2012

kennsludagar

Ég er að ljúka við að kenna einum hóp, rétt að byrja á öðrum tveim...

Ég vinn á C-núll núna eftir ákveðnu kerfi sem ég verð víst að tileinka mér sem fyrst svo ég standi ekki ráðvillt við að reyna að átta mig á hvert ég á að fara þegar mér liggur lífið á að fara á þann stað sem boðtækið segir mér að fara.

Ég ætla á eitthvað námskeið.

Svo er ég að hugsa um jóga.....  

04 March 2012

upprekjuprjónadagur

Ég er alltaf rétt við það að klára peysu Æ-mannsins þegar ég uppgvöta að þetta eða hitt er ekki að gera sig og að ég verði að rekja upp.

hafrún lærði einhverja list hjá dóttur sinni sem gengur út á að bjóða sjálfum sér í mat hjá öðrum.   Svo hún borðaði með mér í gær einhverja ódýra grænmetislausn laugardagskvöldanna.   Ein dós úr búð og önnur og allt tilbúið á pönnuna með smá alvöru grænmeti beint úr ofninum.

Ég hélt við myndum deyja úr hita.....

Æ-maðurinn liggur á sálu minni og ekkert sem ég vil gera við því núna.  Toppmaðurinn, Nördið, ÚlenskaHjúkkan og FinnurMaðurinn komu til mín í gær....  svo fór ég með þeim.... hluti þeirra með mér.... og að lokum kom ég mér heim til að fara í vinnu.

Lesa-bækur-staflinn minn vex.....

Kennsla á morgun, vinna og fundur um C0, B1, B2, B3 og C1 og nýju græjurnar.  

Er ég að nenna þessu....

01 March 2012

fimmtudagur

Ég átti í samræðum við konu í dag sem villtist inn á Minn Vinnustað í einhverjum öðrum erindagjörðum en að tala við mig .   Við ræddum Söguna, b-12 vítamínskort og delirium tremens.  Svo ræddum við grænmetisát, viktarnálarfall og þörfina á að vera vakandi fyrir átröskunum.

Ég settist inn í strætó í dag og bara vegna þess að ég nennti ekki að ösla snjóinn meira en nauðsynlegt var.  Meðan ég beið eftir strætó, flaut hugsuninn vítt og breitt um himingeiminn og þó aðalega flögraði hún utan um Sólóklúbbs-upplifun mína.

Ég gekk í félagsskap ókunnugs fólks, þar sem mér leiddist að einu vinirnir sem höfðu tíma fyrir að lifa lífinu með mér voru Toppmaðurinn og Nördið og einstaka aðrir einstaklingar af svipuðu sauðarhúsi eða einstaklingar sem nenntu ekki að gera neitt með mér annað en að skvetta í sig bjór, eina og eina helgi á milli vinnu.

Ég skráði mig á netinu og gekk inn í kaffihús sem var nánast hinum megin við götuna þar sem ég bjó.  Þessi félagsskapur hittist í göngu alla þriðjudaga, á sama tíma og á sama stað til að rölta hring.   Og þar fann ég mig sko algjörlega.  Strákar sem nenntu að hafa stelpur í eftirdraginu, bara til að vera saman, hlægja, segja sögur, syngja og það allt án áfengis.   Ég elti þá sko alla, út um allt og held bara satt að segja að þar hafi ég grætt án efa fullt af frábærum minningum, kjark til að hreyfa mig og vit til að vera bara ég.

Ég sá líka og lærði að það að vera einhvers staðar lengi gerir mann á einhvern hátt háðan verunni og býr til tilfinningu fyrir að maður eigi eitthvað sem maður ekki á. 

En núna eru breyttir tímar.  Vinir mínir hafa tíma fyrir mig.  Fjölskyldan hefur tíma fyrir mig.  Og ég á mér ný og mögnuð áhugamál sem krefjast tíma míns.....    

annasamir dagar



Ég fór í sjóinn áðan, hlustaði á upplestur úr bókinni Kynlíf eftir Fritz Kahn og horfði á mann borða ís.

Í morgun mætti ég á Minn Vinnustað og fór ekki þaðan fyrr en mér var hent út seinni part dags.   En það var bara af því að ég vildi sjá nýja Sogn sem kemur ekki til með að heita Sogn og svo þurfti ég nauðsynlega að vinna smá.   Á morgun ætla ég sko að fara heim korter í.....


Það var ekki frá því að ég héldi að húsið myndi hrynja yfir mig áðan eða í það minnsta veggurinn sem rúmið mitt liggur upp við svo öflugur var þessi skjálfti fyrir þetta hús.  En þar sem það hangir lítið sem ekkert á veggjunum hér kem ég til með að sofa róleg í alla nótt.

Ég heyrði í strák í kvöld sem mér fannst gott að heyra í.  Ég heyrði líka í pabba en hann verður stundum þreyttur á að bíða eftir að sjá mig.  Ég skil það vel.  

Á morgun hafrún mun ég labba í vinnuna, vinna, skreppa til pabba eftir vinnu og snúa mér svo alfarið að kennsluundirbúningi fyrir næstu viku.  Því að í næstu viku mun ég kenna í þrjá daga og þar af einn í Borgafirði
Síðan kemur föstudagur hafrún og þá mun ég líka labba í vinnuna, labba heim og svo labba í Esjuhlíðum með Smalanum fyrir kvöldmat.
Á eftir þessum dögum kemur svo helgi og helginni allri mun ég eyða á Mínum Vinnustað við að hugsa um sjúklingana, stofnunina og hvað ég eigi að borða.

gott plan......