17 November 2013

bergmál dagsins..

Það snjóar.

Á Mínum Vinnustað er það ekki alveg á hreinu á milli eyrna minna hvað ég á að vera að gera og hvað ekki. Svo yfirleitt geri ég bara það sem ég held að ég verði að gera.  

Sem leiðir mig svo oft út í bölvaða vittleysu...  

Ég fór í rauðan kjól, setti á mig rautt naglalakk, eldrauðan varalit og málaði mig í kringum augun.  En það tók engin eftir því að ég væri til þrátt fyrir það.

Svo ég sit enn á eintali við sálina með Bubba á fóninum...

Öll helgin fór í að hugsa um þrjá ketti, tvo hunda  og tvö og hálft barn fyrir vinkonu mína sem veltist um á Akureyrir við að kenna þeim eitt og annað. 

Ég sit úti í horni og blæs og blæs á öll hárin sem ráðast á mig og veit ekki hvort ég kem til með að sigra þessa orustu eður ei.

Ef ég lifi þetta ekki af vil ég að þið vitið það að mér þykir oggulítiðpínuponsu vænt um ykkur....

16 November 2013

detta í það kvöld

nú er ég fullur ræfill og róni
reikull í spori drekk ég mitt vín
Hagandi mér eins og helvítis dóni
dragandi stráka upp í til mín.

ég reyndi það ekki, en ég hefði verið alveg til í......

10 November 2013

ég tók hvíldardaginn heilagan..

..ég hugsaði mín mál og lék mér svo það sem eftir lifði dags.   En ég nennti ekki út.....

Ég hlusta á Owl City út í eitt.   Þeir eiga titillagið í animation myndinni The Croods, Shine Your Way.  Ég horfði líka á Hugo. Að hluta til um manninn sem bjó til myndina ..le voyage dans la lune.. frá árinu 1902 sem ég horfði á fyrr á árinu.  Ég er líka búin að horfa á nokkrar stutt, stutt myndir um lífið og lagið og ætla að halda áfram með frekari áhorf fram á nótt.


Uppáhalds myndin mín eftir gærdaginn.   Ég fór nefnilega að hlusta á Ljótu hálfvitana og fékk tækifæri til að mynda mig í örmun nokkura meðlima hljómsveitarinnar.

Það er ágætt að þekkja rétta fólkið...

06 November 2013

ég leitaði sannleikans í tölum en fann hann ekki..

..sagði Konfúsíus eða næstum því það..   Ég hef þetta ekki orðrétt eftir honum, enda hef ég aldrei hitt manninn.  En tölur lögðu samt einhvern grunn að bandalagi milli vísinda, skynsemi og trúarbragða hér aftur í fortíð og til dagsins í dag.

Það er einhver ólýsanleg ró yfir tölum og öllu því sem lítur að þeim.  Vinna með tölur er líka ekki einhver geðþóttar ákvörðun eins eða neins.  Annað hvort kanntu að reikna dæmið eða ekki.  Annað hvort voru tíu konur þarna eða ekki.  Svo má æsa sig yfir því hvort þær voru í fallegum bláum kjól eða himneskum safírgrænum.  Hvort þær nutu þess að vera þarna eða ekki.  Og hvort þær fóru snemma eða seint.

Ég ætla ekki að taka eins sterkt til orða og Pýþagóras um að ALHEIMURINN byggist á tölum en heimurinn væri töluvert innihaldslausari og óreiðukenndari án þeirra. 

eeeeeeeeeiiiiiiiiinn

hættu að telja þetta er ég.

05 November 2013

þaðerdásamlegtaðhugsatilþessaðþaðskulikomasólaftureinhverntíma

Ég er komin með skammdegisþunglyndi.

Ég vaknaði í morgun við ískrið í klukkunni og var andartak að vona að þetta væri bara vekjari sambýlingsins sem væri að gala á hann að vakna til að horfa á eitthvað.  Þegar ég fattaði að það væri óskhyggja ein velti ég mér af einni hlið á aðra, til að kanna ástand lífs míns.  Það reyndist í góðu lagi svo ég var tilneydd til að fara á fætur og drulla mér í vinnu.

Lífið er ekki alltaf eins og það á að vera....

Einu sinni í viku helga ég það sem eftir lifir dags, eftir vinnu, í mig sjálfa.  Þann dag reyni ég að gera ekki neitt fyrir einhvern annan, vinna í leiðinlegum skammtíma verkefnum eða hugsa um eitthvað annað en mig sjálfa. Það tekst misvel.  Í dag sat ég þó nokkra stund við að fá mig til að viðurkenna hvað ég virkilega vildi.  

Eftir það var lífið leikur einn....

hreyfing:   ..engin..

næring:   ..léleg..

menning:   ..internetið..

ég held virkilega að þetta sé ekkert annað en sjúkdómur.

26 October 2013

flækingur...

...ég hef alltaf talið að það skipti ekki máli hvað lífið hafi upp á að bjóða.  Hvað sem á dynur, hvað sem gerist þá komi ég til með að  lenda á fótunum eftir að ég er búin að jafna mig á því sem upp á kemur.

Ég er ennþá á þeirri skoðun.

Það hefur meira að segja flögrað um huga mér að þegar ég verði gömul, hætti að vinna og eigi ekkert og hafi ekki efni á leigu, þá muni ég bara búa á götunni ef ekkert annað er í boði og halda áfram að lifa.

Ég er meira að segja að hugsa um að fara í sjálfboðaliðavinnu við að hugsa um heimilislausa.  Svona bara til að sjá hvað hugsanlega bíður mín í ellinni.  Ég þoli nefnilega ekkert óvænt, að vita ekki hvaða möguleika ég hef eða hvaða aðstæður geti komið upp á.

Ég get ekki ætlast til að maðurinn sem ég bý með nenni að búa með mér ævilangt.  Það skiptir engu máli hversu skemmtileg ég er eða hversu auðveld ég er í sambúð þá breytir það ekki þeirri staðreynd að hann á sér líf og ég er ekki hluti af því lífi.

Mér finnst samt gott að koma heim þar sem vel lyktandi eintak af alvöru karlmenni lifir sínu lífi og tekur á móti mér með tilvist sinni.   Mér finnst þægilegt að heyra umgang þegar ég vakna, vita af einhverjum í nálægð við mig eða jafnvel haft samkipti þegar því er að skipta eða þegar mig langar til að ræða við vitræna veru.

Reyndar er ég að hugsa um hvað ég er myrkfælin ein.  Hvers vegna ég geti ekki sofið við opnar dyr þegar ég er ein heim þótt mér finnist það ekkert mál þegar hann er heima.  Og hvað martraðirnar hellast yfir mig núna meðan hann er ekki heima á nóttinni þótt mig dreymi ekkert þess á milli.

Í augnablikinu langar mig ekkert til að búa ein...

næring:  ...grænn kostur..

hreyfing:  ...rölt í vinnunna frá Mörkinni  fyrir klukkan átta í morgun..

menning;   ...áhorf á myndina ASKA með hafrúni vinkonu..

Aska er mynd um öskuna úr gosinu úr Eyjafjallajökli.  Hún er um afdrif þriggja fjölskyldna eftir gosin tvö. Það er ekkert fræðilegt í þessari heimildarmynd.  Ekkert fræðilegt um gos, ösku eða áhrif á líf.  Hún fjallar bara um bjargráð þeirra þriggja fjölskyldna sem málið varðar.  Til hálfs nokkuð skemmtileg mynd.

Og hún hafði skemmtilega tengingu við Game of Thrones.

22 October 2013

af hendi lífs míns byrjar hver dagur sem upphaf ...

..á einhverju nýju og yndislegu..

Kannski er það vegna þess að ekkert situr fast í höfði mínu stundinni lengur eða þá að ég er bara svona ofboðslega öguð án þess að gera mér grein fyrir því.

En allir dagar byrja í friðsæld.  Eins og engu þurfi að breita og að ég sé einmitt að gera bara það sem ég vil vera að gera og allt er eins og það á að vera frá lífsins hálfu

Svo líður fram á daginn og ég átta mig á því að ég vil vita meira, gera meira og þurfi að hætta öllum þessum vesæla ósóma sem ég er búin að tileinka mér.

Áður en ég sofna er ég orðin vesæll aumingi sjálfri mér til miska og leiðinda.

Svo framvegis ætla ég að lifa lífinu til hálfs....   ég ætla að vakna, njóta dagsins meðan hann er góður og skríða upp í rúm áður en ég er farin að átta mig á að allt er ekki eins og ég vil hafa það og dvelja þar þar til nýr dagur með nýju yndislegu upphafi rís.

næring:   ..engin hollusta og allt of mikið af henni..

hreyfing:   ..letileg hreyfing frá einum vagni til annars..

andleg gleði:   ..stara tómum augum út í tómið..



ætli ég komist í skóna mína aftur...

17 October 2013

ég er komin með langan lista af ógerðum verkefnum....

....og þá er ég bara að tala um skylduverkefni.


næring:   ..kínó með hvítkáli, lauk og blaðlauk..

hreyfing:   ..engin..

ástin í lífi mínu:   ..kurt vonnegut..

Ég er að leita mér að húsi sem kostar lítið sem ekki neitt, staðsett innan Reykjavíkur og forvitnilegt og heillandi í senn...

30 September 2013

anda inn... anda út.... anda inn... anda út...

Ég er bara að minna mig á lífið.


Það borgar sig að muna eftir að lifa því.....

19 September 2013

kæra dagbók

Biblíulestur gengur treglega.  En ég er alveg að verða búin að ná því hvaða 101 hlut ég á ekki að framkvæma.
Þrátt fyrir það náði ég að röfla mér til minnkunar yfir framkvæmd sem mér fannst heimskuleg...  og svo naga ég mig inn að beini fyrir röflið því að ég veit að það er ekki hægt að kenna gömlum hund að setjast nema hann sé tilbúin til þess sjálfur.

Ég hef það fyrir satt að það séu bara kvennkynsverur sem naga sig inn að beini fyrir að ergja aðra...  að karlmenn bíti bara fórnalambið fast og láti þar við sitja.  

Ég væri alveg til í að hafa þá samskiptafærni....

09 September 2013

Ón og Ús

eru borgir nefndar í Biblíunni.....

Ég held að ég hafi bara nóg að gera í augnablikinu.


25 August 2013

ég er skítug..

..en ég geri ráð fyrir að bæta úr því einhvern tíma fyrir morgunsárið.

Ég horfði á Silver linings playbook þökk sé þeirri sem ræður yfir mér á Mínum Vinnustað.  Það er ekkert meira um það að segja nema að mér fannst tíma mínum ekkert illa varið.


ég fyllilega nýt þess að horfa á ástardrama....

24 August 2013

ég ætlaði að synda til Viðeyjar..

..svo hafði ég engan til að synda með, var að passa börn og er ekki í þjálfun.

Aumingja ég.  Ég fór ekki vegna þess að eitthvað fyrir utan mig og mína ákvörðun kom í veg fyrir að ég gæti það.   Það firrir mig náttúrulega alveg frá því að þið hugsið að ég sé löt, geti það ekki eða sé svo menningarlega bæld að ég taki ekki þátt í samfélagsviðburðum.  Sem væri alveg hrikalegt fyrir þá mynd af mér sem ég vil að þið hafið trú á. 

Alveg fyrsta flokks afsökun fyrir að framkvæma ekki.  

Hér baka tveir tíu ára muffins.  Ég keyrði 14 ára til vinkonu en þær eru að fara að leika sér á menningarhátíð. Sex ára hamast við að hafa stjórn á köttum og hundum.  Kettir og hundar hamast við að komast undan þeirri sex ára og heimta athygli mína í formi næringar eða hreyfingar.   Sjálf er ég að hamast við að reyna að njóta helgarfrísins.

Mig langar í súkkulaðiköku......

21 August 2013

þurfalingur

..mig vantar stað til að drottna yfir.  Stað þar sem ég ræð hvort hillan er græn eða blá, á austur eða vestur vegg eða hátt eða lágt á veggnum.

Mig langar að kaupa mér íbúð....

Ég var að hlusta á útvarpið fyrr í dag og komst að því að ég tilheyri 20% heimsins eða þeim hluta þjóðarinnar sem finnst, að hár sem vex á líkama sé ekki endilega hár sem þarf að fjarðlægja af líkamanum.  Enfremur hrífst ég meira af róna-lúkkinu en fullskeggjuðum mönnum eða bónhæfum kjálkum.  

Ég er að verða með útdauðar skoðanir...

Ég horfði á the Importance of Being Earnest  og er í augnablikinu heilluð af Oscar Wilde.  
Ég reyndi að smakka á Napoleon Dynamite en ég er of þreytt til að halda athygli.enda tók ég við yfirráðum yfir fjórum köttum, þremur börnum, tveimur hundum, heilu húsi og tveimur bílum tímabundið svo auðvitað er ég þreytt.....

19 August 2013

Heilög heimska

..fáviska mín um mig sjálfa á sér örugglega óteljandi hliðstæður í henni veröld því bókin The Penguin Krishnamurti Reader fjallar um Sjálfsþekkingu.   Og ef gefin er út heil bók til að kenna manni að þekkja sig sjálfan hljóta fleirri að þjást af þessu en ég.

Svo ég er sátt en ég les þessa bók samt án afláts......

hreyfing:   ..sjósund..

næring:  ..sætar og gulrætur soðið í drasl með jukki úr krukku..

afrek:  ..ná í sex ára í Sumarskólann og deila með henni sjósundsferð..


Á rúminu mína liggja tvær bækur, Hugmyndir sem breyttu heiminum og Draw, how to master the art. Úr tölvunni ómar eitthvað sem ég næ ekki að halda þræði til að fylgjast með.  Og á borðinu liggja nokkur póstkort sem ættu að vera löngu farin frá mér.

Hugur minn með allar sínar hugsanir er bara farin í rúmið löngu á undan líkamanum....

zzzzzZzzZZZzzzzzzzZzzzzzzzzzz

Á morgun flyt ég inn á heimili vinkonu minnar í Mosó og þar verð ég fram yfir helgi.  Hún ætlar til Svíþjóðar að leita að kærustum handa okkur.  Ég vona að henni vegni vel.

Prjónaflíkasjósund - Neðanþvottakennsla - Matarboð - Hjólameðferðanámskeið -  Mamma - Lopapeysumaraþon - Garðræktunarumhugsun - Kveðjupartý Svíþjóðafaranna - Sjálfsþekkingaruppfræðsla 

Ég er búin að ganga út eitt skóparið mitt....

18 August 2013

ég drap geitung í gær

Aumingja geitungurinn gerði ekkert nema álpast inn í íbúð þar sem ég sat og trufla mig.   Núna er ég með samviskubit og get ekki þurrkað minninguna út úr huga mér.  Hjút stórt samviskubit, byggt á þeim grunni að allir hafi jafnan rétt til lífs, að það skemmi karmað að brjóta á öðrum og þeirri staðreynd að ég borðaði hann ekki.....


Blessuð sé minning hans......

17 August 2013

telst það þjófnaður að taka upp það sem maður sér í Fréttablaðinu...

UPPÁHALDS
.................................................



BÓK
blue2

DRYKKUR
vatn með mörgu..  vatn með sítrónu, vatn með ediki, vatn með hunangi, vatn með tepoka í, vatn blandað kaffi, vatn blandað möndlum, hnetum eða kókosi og þó fyrst og fremst ískalt óblandað vatn

HREYFING
ganga út um fjöll og fyrnindi

MATUR:
hafragrautur með öllu.. hafragrautur með hnetusmjöri, hafragrautur með chiafræjum, kakónibbum, gojiberjum og krækiberjum, hafragrautur með jarðaberjunum sem ég tíni ef eigin plöntum, hafragrautur með stöppuðum bönunum og þó fyrst og fremst hafragrautur borðaður undir berum himni.

VEITINGARHÚS
Grænn kostur og Gló 

VEFSÍÐA
wattch all tv series online for FREE

VERSLUN
útivöruverslanir og ikea

..ekki það að þessar upplýsingar skipti einhverju.  Ég bara varð að prufa að svara sjálfri mér einhverjum gáfulegum spurningum..

mighefuralltaflangaðtilaðsitafyrirsvörumafeinhverjutagienaldreifengiðóskumþaðsvo......

Ég settist niður og ætlaði að taka viðtal við mig sjálfa og birta hér.   Viðtal með nokkrum spurningum sem myndu segja í stuttu máli eitthvað markvert um það hver ég er.  Þá uppgvötaði ég að ég þekki mig ekkert og að ég veit lítið sem ekkert um persónuna mig.

Mér, til dæmis, datt til hugar að ein spurningin gæti verið ..hefur þú hringt í vælubílinn nýlega..  og sama hvað ég velti þessari spurningu fyrir mér gat ég alls ekki munað við hvaða aðstæður eða hvenær ég hringdi í hann síðast.   Alveg eins og ég hefði bara alls ekki undir neinum kringumstæðum hringt.  Sem náttúrulega væri helber lygi.  Og lygi er leiðinleg.  Svo þar flaug sú spurning langt út á sjó.

Þá hugsaði ég um það  ..hvenær ég gerði sjálfa mig að fífli síðast og hvernig..  en sama hvað ég gróf djúpt þar fann ég ekkert.  Og samt veit ég að ég er meistari í að gera mig að fífli.  Eða var og þótt það er nánast liðin tíð ætti að vera af nógu að taka af því sem áður var.  En EKKERT.  Ekki einu sinni pínu ljós kveiknaði á peru minninganna.

Það var sama hvað ég lét mér detta til hugar að spyrja sjálfa mig að  svo sem  ..tekur þú strætó.. -  ..ferðu hjá þér þegar þú hittir frægt fólk.. -  ..ertu hörundsár.. - ..hvern faðmaðir þú síðast..  og annað eftir því, þá annað hvort var allt slökkt eða svörin voru eins atkvæða orð.

Það sem kom mér samt mest á óvart með þessu viðtali mínu við mig sjálfa var að komast að því að ég gat ekki einu sinni talið upp þrjá kosti sem ég væri gædd.

Þá er nú fokið í flest skjól.....

15 August 2013

sál mín sökkar og allt mitt geð..

..þess vegna skrifa ég dagbók, blogga og sendi reglulega út montstatusa á FB,

hreyfing:   ...inn og út úr bíl í allan dag...

næring:   ...popp, hnetusmjörskex og hafragrautur...

menningartengt:   ...2GUNS baltasar kormáks...

afrek:   ...vann vinnuna mína og rúmlega það...

Ég er að hlusta á útvarpsleikhús.  Biblían liggur á borðinu og bíður eftir að ég fletti blaðsíðunum.  Og ég verð að fara að koma mér í rúm til að hafa orku til að hugsa allt sem ég þarf að hugsa á morgun á vinnustað.

Ég er alveg að tína hreyfigleði minni og finnst bara gott að sita í sófa og prjóna meðan ég hlusta á einhvern segja mér eitthvað úr tölvunni eða fletta bók.  

Ég er einhvern veginn ekki að gera mig núna.......

í verkefnavinnu...

Dóttir mín fór til Þýskalands og ég tók að mér að passa kjólana hennar og bjórinn....

Reyndar fylgdi með að ef pabbi barnsins hennar þyrfti aðstoð við að hugsa um barnið sitt þá mætti hann leita til mín.

Ég held að kjólarnir hennar verði hér enn þegar hún kemur heim aftur en ég leyfi mér að efast um bjórinn....

14 August 2013

Pabbi sagði að ég væri eins og lessa á sjötugsaldri....

Ég sagði:  ..og?..

Og ég meinti það.   Svo vaknaði einhver jafnræðisvitund upp í mér og ég fór að velta því fyrir mér hvort það fælust ekki einhverjir fordómar í þessum orðum hans.  Eins og hvort það væri eitthvað athugavert  við það að vera á sjötugsaldri eða þá að vera lessa.  Svo komst ég bara að þeirri niðurstöðu að hann væri að reyna að segja mér að honum fyndist ég ljót þar sem ég held eindregið að hann hafi ekki verið að bera á borð hrifningu sína á lessum né sjötugum konum.  Kannski einföldun á hugrenningum mínum en ég er fullkomlega sátt við útlit mitt, útlit sjötugra kvenna sem ég held að sé jafn breytilegt og útlit tvítugra kvenna og útlit kvenna sem kalla megi lessur sem ég er alls ekki viss um að sé neitt annað en útlit kvenna sem telja sig til gagnkynhneigðra hópsins.

En svo leið tíminn og konur dáðust að útliti mínu, strákarnir í vinnunni brostu í átt til mín og almenningur svona almennt (fólk í strætó og á förnum vegi) horfði stíft á mig.  Um mig fór að læðast grunur um að þetta fræ sem hann sáði í vitund minni væri kannski á sönnum grunni byggt.   Að útlit mitt væri alveg æpandi endurskinsmerki sem segði almenningi að ég væri gömul og að ég væri lessa.  Ég var eiginlega orðin skelfingulostin um að eina athyglin sem ég fengi í framtíðinni væri frá konum og að strákar myndu ganga framhjá mér án þess að taka eftir mér.  Og ég sem er sambandslaus....

Þá stoppaði mig maður til að segja mér að útlit mitt væri flott.....


Svo ég ætla að leyfa mér að halda áfram að vera ánægð með mig.....

Svo núna eru það bara fleirri lokkar með tilheyrandi götum og tattú á dagskrá.

10 July 2013

ég er farin úr mannabyggðum..

..og kem til með að vera sambandslaus við umheiminn þar til um miðjan ágúst.

Ég ætla að sameinast jörðinni, sjúga í mig orkuna frá náttúrinni og vera eitt með alheiminum þann tíma.

Megið þið vel lifa...........

....svo og ég.

09 July 2013

einhvern tíma verð ég fyrirmyndar borgari...

..ég held svei mér þá að pabbi líti á mig sem strákinn sinn.

Sko maðurinn hefur enga samúð með þeim sem ráða á mínum vinnustað þegar ég kvarta í honum yfir eigin hegðun.

Ég sagði honum í dag að ég væri alltaf að fá ávítur fyrir óheflaða framkomu og hvað sem ég reyndi væri ég alltaf að klúðra aðdáund þeirra sem öllu ráða með heimskulegum uppátækjum sem hæfir kannski ekki konu á mínum aldri.

Honum fannst það ekkert mál.   Sagði bara að ég hegðaði mér líklega bara eins og líflegur strákur.  Reyndar sagði hann ekki 'líflegur' en eitthvað orð notaði hann um strákslega framkomu mína.

Skrítið samt að hann skuli karlgera mig fyrir vanhugsaðar framkvæmdir.

Ég vildi stundum að ég væri ekki með mótþróaþrjósku-ófyrirsjáanlega-geri-það-sem-mig-dettur-til-hugar syndrom.

Það á það til að valda mér vandræðum.....

01 July 2013

25 June 2013

ég er búin að tékka á Sækúnum..

..ég er líka búin að tékka á North Atlantic Row..

Kýrnar eru hópur kvenna sem henti sér út í haf og svamla þar um núna hálf naktar með það eina markmið að koma sér á milli strandlengja...  Row-hópurinn er svo föngulegur hópur karla sem svitnar við árarnar á Auði og ætla að ferðast sögulega leið yfir Atlantshafið sjálfum sér og öðrum til ánægju.

Ég fór í garðinn minn og tók þar til höndum með öðrum garðeigendum....


hreyfing:   ..munda gaffal til að færa til jarðefni..

næring:  ..ofát..

ánægjuefni:  ..sæki afkvæmi 1, afkvæmis II í leikskólann og passa fram eftir nóttu..


bráðum fer ég í sumarfrí....

ég las blaðið í dag...

...og komst að eiginlega engu, nema kannski að það var ekki nema ein atvinnuauglýsing á íslensku og ein á útlensku.

...ég hlustaði líka á útvarpið eitt augnablik og komst að því að maður hafði slasast illa við meðferð á gaskút

...þar sem það var fyrsti vinnudagur eftir viku fjarveru, af þeim mæta stað, komst ég að því að þar hafði lítið breyst.

Deginum eyddi ég í samvistum við smádýr..  Ég leitaði hana uppi og fann á leikskóla... dröslaði henni heim til hennar nánast alla leið... eldaði handa henni grænmetisrétt... skar ofan í hana papriku og epli... og reyndi svo að lesa hana inn í draumaheima.

Hún var ennþá vakandi þegar ég fór....


09 June 2013

ég á veiðistöng...

...og hef samviskubit yfir því.

Ég sat í rúminu mínu og leyfði Earthlings að rúlla um í taugaendunum og hafa áhrif á sellurnar sem flögruðu um í heilahvelum mínum.  Ég var orðin harður Vegan einstaklingur sem ætlaði að hætta að læða ostbita inn um varirnar og byrja jafnvel að berjast fyrir réttindum hina skynlausu skepna sem eru nánast aldar upp bara til að fæða okkur, fræða, klæða og skemmta.   Fallega veiðistöngin sem átti að rúlla á land ársbyrgðum af ferskvatns næringu fyrir venjulegan íslending og jafnvel taka þátt í að vinna að uppbyggingu á væntanlegri aukabúgrein þar sem þorskur, ýsa og annað sjávarfang spilaði stóra rullu varð mér allt í einu þyrnir í auga.  Mig fór að svíða í áætlun um að standa á bökkum allra vatna landsins og við alla strandlengjuna með veiðistöng.  Mig fór einnig að svíða í þeirri áætlum sem snýr að því að snorka um í leit að æti og taka svo fríköfunina með sting í hönd til að ná því æti.  Ég sá fyrir mér kvalarfullan dauða einnar lífveru, annarri til ánægju.  Og það er sko ekki fögur sjón. 

Fimm mínútum seinna stóð ég á bryggjunni við Reynirsvatn og hugsaði:  ..ekki bíta á hjá mér, ekki bíta á hjá mér..  án árangurs.   

Núna á ég eitt lítið dautt vatnsdýr sem ég er tilneydd til að borða til að gera minna úr sársaukanum.  Og ég finn fyrir óendanlegu þakklæti til Sambýlingsins fyrir að taka aftökuna að sér án athugasemda....

06 June 2013

06.06

Það er engin leið til að lýsa gleði minni fyrir að fá að upplifa þessa dagsetningu eitt en árið....

Menningarbrjálæði:


Svo var það Fljúgandi barnfóstrann:


Á undan því var það afmælisveisla yngsta barnabarnsins.....


Og við fórum í stórfellda ræktun á svölunum hér í Mosó.....


Sambýlingurinn á klárlega blóm staðarins....



hver keppir við sólblóm.....

31 May 2013

ég er ástfangin af Hugleiki Dagssyni..

..svo ég ætla að eignast allar bækurnar hans..

Ég er orðin Umhverfisverndarsinni.  Miklu meiri umhverfisverndarsinni heldur en mér er í blóði borin.  Núna er þetta lærð hegðun.  Núna læt ég mér ekki nægja að henda ekki lausu rusli út um allt heldur tek ég þátt í mótmælum, les um stóriðjur og velti fyrir mér hvað ég get gert til að skila heiminum betri en ég fékk hann í hendurnar.


Framvegis sjáið þið mig þar sem grænfánarnir eru....

Núna er síðasti löglegi dagurinn minn á staðnum sem ég bý á.  Ég leigði þessa íbúð fyrir níu mánuðum án þess að láta mig dreyma um að það fylgdi eitt stikki af vellukkuðu eintaki af karlmanni með. Ég er með pínu kvíða sem hringar sig um hjartarætur mínar.  Verður þetta eins þegar ég fer að leigja hjá honum en hann ekki hjá mér.


Einhvern tíma neyðist ég samt til að flytja út.  En það er ekki strax...........

Ræktunin á tómötum gengur vel hjá honum.


Mínar plöntur eru eitthvað slakari....

En ég blómstra.


enda alveg að verða 52 ára.   Bara alveg fullorðins.....


Ég fékk blóm.....

30 May 2013

Og hvernig er það með kartöflugarðinn minn

..hvar er hann..

jæja hvað geri ég núna Hafrún....

..skatturinn er með einhverja áætlun á mig   ..vegna lakra skila á skattskýslu.  

Dugar að bíða bara og sjá hvað gerist eða verð ÉG að gera eitthvað.....

28 May 2013

býflugur

Ég er búin að vera í því að hugsa um að börnin hennar Erlu muni eftir að mæta í skólann og taki með sér síma og lykla þangað. Þau fengu bara óhollt að borða og ég eyddi meiri tíma dagsins í að vinna en að hugsa um þau.

Ég vona að þau hafi ekki hlotið varanlegan skaða af.

Á morgun lýkur þessari pössun á skólagöngu barnanna hennar Erlu....  Á morgun lýkur líka hjólað í vinnuna átakinu...   Á morgun fer ég aftur heim til mín....

Ég hlakka mikið til að fara heim í dótið mitt, sjá aftur manninum sem ég bý með og hjóla styttri leið að og frá vinnu.

Ég er að fara heim........

27 May 2013

25 May 2013

ég á miða á Daniel Johnston..

..ég er búin að borða epli, horfa á dýrin sem ég er að passa og skoða Andraland.

Ég keypti mér Kayak í gær.   Kayakinn fór í skúrinn hjá Bjartsýna stráknum á mínum vinnustað og Leikarans og fer svo með tímanum í gámana í Geldingarnesi,

Ég hafði ekki efni á honum en það er svo sem með allt sem maður eignast.

Seinna ætla ég að eignast íbúð.....

Núna vantar mig:
-björgunarvesti.
-kíkir á riffilinn.
-böglabera á hjólið og hnakk-töskur.
-nýjan kjól.
-skó.
-dínu.
-göngutjald.
-snorkgræjur og langa froskafætur.

Ég vildi að ég hefði tíma til að fara á aðalfund lífrænsræktandi neytenda sem er núna í dag en ég verð víst að eiga einn dag fyrir MIG...

20 May 2013

kannski ég labbi bara um með lokuð augun....

....til vonar og vara til að hlífa börnum og barnabörnum við ömurlegu lífi

En í alvöru talað.  Ég gæti aldrei beygt mig fyrir þessu.   Þá væri betra að vera bogin og brotin og þaðan af verra þótt sárt sé að segja.

Kayakinn minn er kominn á borðið.  Nú er bara að finna peninga fyrir honum.  Ég fann mann sem vil losna við kayak, ár, neyðarpoka, galla, toppgrind og festingar fyrir kayakinn og nokkra vatnshelda poka.  

En mig vantar ennþá björgunarvesti...


lestur vikunna:  ..Bone, teiknimyndasería í níu bindum..

menningartilburðir vikunnar:   ..eruvision áhorf í gæsa-partýi..

samfélagshjálparstarf vikunnar:  ..passa 3 ketti, 2 krakka og 1 hund..


Ég er á leið í Jökulsárlón í vikunni til að sigla um lónið og borða fiskisúpu.  Það er einnig samfélagslegt hjálparstarf.  Kannski gefst tækifæri til að hlaupa upp að einhverjum foss, hlæja á bóndarbæ eða eta humar  á Humarhúsinu á leiðinni heim.

Hver veit...

Mig vantar:  hraða- og kílómetramæli á hjólið,  böglaberara, hnakka töskur, gelpúða, hjólabuxur, bjöllu, lukt að aftan og framan og neyðarviðgerðabúnað. 

Ég ætla nefnilega í stóra hjólaferð í sumar....

19 May 2013

ætli ég verði ekki að vara börnin mín við...

..ef ég kem til með að verða vitni af einhverjum brjóta gagnvart einhverjum fyrir framan augu mín mun ég bera vitni í málinu og mun ekki hugsa mig um....

ef þessir einhverjir eru virkilegir glæpamenn sem munu hefna sín á mér eða mínum nánustu....   þá sorrý ...ég get bara ekki beygt mig fyrir því.

ég mun samt bera vitni...

25 April 2013

dagurinn minn í hnotskurn....

Við sátum saman og lásum upp úr Íslandsklukkunni fyrir hvort annað.  Svo fór ég að passa....

Núna sit ég uppi í rúmi og hlusta á athöfn frá Prikinu.  Eitthvað um dúll.  Í rúminu hjá mér liggur Bubbi og Íslandsklukkan í öllu sínu veldi.   Frammi er eitthvað þrusk í sambýlismanninum.  Þrusk sem ég get ekki greint í athöfn af nokkru tagi enda ástæðulaust.  Hann á sitt líf.   

Ég kann ekki dúll, veit ekkert um Laxness og kann ekki að bora í vegg.  Ég lifi ágætis lífi samt sem áður.

En mér leiðist aðgerðaleysi mitt og skortur á hetjudáðum....

14 April 2013

ég er aftur á veginum...

...á komóðunni loga níu kerti.  Ég veit ekki hvot það er góð tala en hún stendur fyrir þeim níu mánuðum sem eftir eru á árinu.

...blómadopa-konan pendúlaði mig til betra lífs.  Á facebook þar sem allt er að gerast komst ég í snertingu við líf með blómadropum og pendúlum.  Svo ég mætti í Ártúnsholtið til að láta laga mig til.  Núna þarf ég að innbyrða u.þ.b. 7 dropa þrisvar á dag til að lífið taki betri stefnu.

Á morgun verð ég á degi eitt.....

29 March 2013

að lifa í núinu og gleyma bæði fortíð og framtíð


sjálfshjálparbækur hamast við að kenna okkur að stoppa í núinu.  Það er talin eftirsóknarverður staður til að njóta lífsins til fulls.  Engin er maður með mönnum nema kunna listina að vera meðvitaður á stundina sem er að gerast.   Fólki er talið í trú um að með t.d. hugleiðslu þurfi að ná núinu ef ekki gefst hæfni til þess á annan hátt.   Fortíðin er liðin og framtíðin ókomin og ekki hægt að lifa lífinu til fullnustu nema að komast á levelið NÚ.

 En er það virkilega svo....

Einstaklingur sem lifir alltaf í núinu man ekki nákvæmlega hvað gerðist í gær og alls ekki nema óljóst allt sem gerðist fyrir þann tíma.  Auk þess kemur framtíðin honum sífellt á óvart því hann er ekki nema óljóst meðvitaður um hvað þurfi til að lifa lífinu áfram.

Núið er alls ekki góður staður til að vera á nema rétt á meðan verið er að njóta augnabliksins.  Svo á að hoppa í hugsun um það sem er skeð til að læra af því eða það sem koma skal til að vera viðbúin.   Það er komin tími til að gefa út sjálfshjálparbók um hvernig megi velta sér upp úr fortíðinni.   Hvernig skuli ná þeirri list að hugsa um liðið samtal og ná að átta sig á hvað viðmælandi virkilega meinti þegar hann sagði:  ..bless..   Eitthvað mætti kenna um, hvað lesa megi í gegnum línurnar til að ná því sem viðmælandi sagði án þess að hann segði það.    Svo væri líka gott að sjá bók um hvernig eigi að vera viðbúin framtíðinni.   Þrátt fyrir daglega dagbókarnotkun er það sem á eftir að gerast seinna og þarfnast lengri undirbúnings alltaf að poppa upp og koma NÚ-istum á óvart. 
Ég myndi kaupa mér þessar bækur án þess að hugsa mig um tvisvar....

26 March 2013

dagur 1....

..ég lifi enn og systir mín reyndar líka.

Akureyri er hvít frá fjallstoppi til fjöru.  Ætlunin er að skjótast á skíði eins og einn dag með afkvæmi afkvæmis míns.  Veltast í sundlaugum staðarins, skoða skautasvæðið þeirra norðlendinga og kannski ganga upp á eins og eitt fjall. 

Systirin er svo upptekin við að ala upp annarra manna börn að hún veitir mér litla sem enga athygli en það sleppur því ég hef verkefni að vinna...  

25 March 2013

textinn er það sem gerir manninn að því sem hann er...

...held ég.

Ég veltist inn á bókasafn í síðustu viku með Bubba í bakpokanum og ætlaði að nýta vel tímann þar til Skriðsundsnámskeiðið mitt hæfist.

Beint strik var tekið að lausu borði þar sem ég ætlaði að hreiðra um mig og njóta augnabliksins með átrúnaðargoðinu.  Það varð lítið út þeirri fyrirætlan því á leið minni varð mér litið í eina hilluna og þar blasti við þykk bók með Bob Dylan og þar sem ég bý með einum sem elskar þann mann heitar en nokkuð annað, greip ég hana til að skyggnast inn í líf sambýlingsins.

Bókin var þykk og stór og í henni ekkert annað en söngtextar Dylans.  

Þar sem ég sat með bókina, lesandi textana, brosti ég og grét til skiptis.  Í dag skil ég fólk sem elskar þennan mann.

heimildamyndaáhorf:  ..The Parking Lot, Dogtown and Z-boys og touching the Void..

næring:   ..súpa úr sætum, linsubaunum og safa úr appelsínu..

hreyfing:  ..bylta mér í rúminu..

ég horfði á Emmu dansa á árshátið Grundaskóla og færði henni páskaegg...  Emelía fer með mér á Akureyri þegar dagur rís og eyðir þar með páskahelginni með mér og Emblu verð ég að kíkja á áður en ég yfirgef stórborgina...

Það er gott að eiga ættingja....

20 March 2013

dauðsmannsleiði....

er eitthvað sem getur hellst yfir þegar gáfulegar hugsanir fljóta út í tómið, týndar.

Leiði er einn og sér afskaplega skrítið fyrirbæri þegar heimurinn er fullur af ógerðum hlutum.  Þegar hann verður til vegna vonbrigða verður hann innantómur hégómi sem varla er vert að tala um.  

Leiði er óskiljanlegt fyrirbæri.  Hvernig er hægt að vera leiður eða láta sér leiðast þegar það er svona agalega margt sem hægt er að gera á hverjum degi.   Þegar dagarnir augljóslega bera með sér alheimsmagn af spennandi hlutum sem hægt er að framkvæma, hugsa um, tala um eða horfa á...   Lífið rúmar ekki einu sinni það sem margt fólk langar að gera.

Samt læra mörg börn strax í frumbernsku að segja:  ..mér leiðist..

MÉR LEIÐIST, MÉR LEIÐIST, MÉR LEIÐIST.   Þetta er með einsdæmum leiðing setning, vegna þess að engum leiðist í raun.  Mann gæti langað að hafa einhvern til að tala við eða verið leiður vegna þess að eitthvað fór ekki eins og því var ætlað að fara.   

En.... er hægt að vera svo leiðinlegur að manni leiðist eða er leiður til lengdar.

Varla.

Þessi leiðindarfærsla skapast af leiða.   Leiða sem skapaðist af leiða vegna týndrar færslu.  Færslan var náttúrulega ein af þessum færslum sem voru öðrum færslum betri og átti svo sannarlega erindi til allra þeirra sem halda að einhver sé skemmtilegri en annar.   

Sérstaklega var þessarri færslu ætlað að koma mér til æðri þroska.   Og æðri þroski er ekki svo auðfengin bæting á lífið að það sé vert að gera grín að því þegar tækifærist skapast.

Núna verð ég að finna þroska minn annars staðar.....

19 March 2013

rassgat í bala...

  
er blótsyrði...

og nú hendi ég því yfir heiminn.  RASSGAT Í BALA.

hugsanir...


Smiles in the sunshine
And tears in the rain
Still take me back to where my memories remain
Flickering embers growing higher and higher
As they carry me back to the........

ég man ekki lengur hvaðan þetta kom.....  en einhvers staðar las ég þetta.

12 March 2013

að nenna eða nenna ekki

Ég er búin að lifa í fjöldamörg ár án þess að nenna að hafa skoðun á einu eða neinu.

Það er til dæmis ekki langt síðan ég var spurð að því í hundraðasta sinn hver væri uppáhalds tónlistamaðurinn minn.  Í upphafi þegar ég var spurð í 99sinn, svaraði ég: ..enginn.. og ég meinti það. Ég á engan uppáhalds tónlistamann.  Ég hlusta bara á tónlist án þess að heyra hana.  Tónlist er í mínum huga bara eitthvað sem er.  Tónlist lætur mér líða vel eða illa og allt þar á milli.  Mér er í raun sama úr hvaða barka hún kemur, hún þarf bara að tóna við sálina í hvert og eitt sinn.  Spyrjandinn vildi ekki trúa þessu svo hann spurði aftur og það var þá í þetta umrædda hundraðasta sinn.  Svo ég svaraði:  ..Bubbi.  Bubbi er minn uppáhalds tónlistamaður..  Fyrir svarið fékk ég hlátur, aðdróttanir og mikið fuss og svei á persónuna sem stendur á bak við nafnið svo ég ákvað að standa með því alla leið.

Það var þá sem ég áttaði mig á því að ég hef skoðanir á hinu og þessu.  Mér hefur bara í gegnum lífið ekki fundist taka því að standa með eigin skoðunum á einu eða neinu.  Í fyrsta lagi elska ég Bubba út af lífinu einn daginn og er sannfærð um að hann sé það eina rétta.  Næsta dag finnst mér svo kannski lítið sem ekkert í hann varið.   Í öðru lagi þekki ég fullt af fólki sem finnst bara fuss og svei um skoðanir annara og gera allt sem í þeirra valdi stendur til að vitka annað fólk og getur verið afskalplega þreytandi í að koma manni á rétta leið.  

Svo er það eitt, sem eiginlega gerir mig frákverfa við að halda á lofti eigin skoðunum, hvað það er mikið af fólki þarna úti sem verður fúlt og lítur á það sem árás á eigin sál ef einn neitar að falla að hópnum og hefur aðra sýn á umræðuefninu.

Í kvöld var eitt af þessum skiptum sem skoðanir mínar stigu á tærnar á nærstöddum.  Ég neitaði upphátt að tala illa um ábyrgðaraðila gönguhóps sem gekk á fjall og missti einn af hópnum endanlega úr liðinu vegna slyss.  Ég beinlínis krafðist þess að ekki væru gefnar út stórar yfirlýsingar á staðnum um ábyrgðarleysi þeirra án þess að vera með haldgóðar frásagnir, frá fólkinu sem virkilega var í þessari göngu, um atburðarásina í heild. 

Mér leiðist eldhúsborðsumræður þar sem dæmt er um lélegheits einhvers sem ekki getur varið sig vegna fjarveru.

Ég get aftur á móti ekki, hvernig sem ég rembist, komið mér upp vitrænum stjórnmálaskoðunum...

Spyrillinn minn, sá sem lét sér varða tónlistasmekk minn á sínum tíma, sýndi mér samt fram á að maður getur stundum grætt á því að hafa skoðun, því eftir að hann vissi að ég var Bubba-lingur þá spilaði hann oft og iðulega lögin hans í nærveru minni þar sem hann sat eða stóð með gítarinn...

11 March 2013

hugsanavilla

..mér hættir til að einblína of mikið á það sem ég geri ekki í stað þess að sjá það sem ég þó framkvæmi...

um leið og ég steig inn um dyrnar þar sem ég halla höfði mínu alla daga varð mér hugsað til þess að ég hefði ekkert þrifið í dag, ekki litið auga í bók og að ég væri ekki búin að gera neitt af viti í allan dag ef frá eru talin afrek mín á vinnustað..

ég náði samt í þetta sinn að snúa út úr þessari hugsanavillu og telja upp fyrir sjálfri mér hvað ég hafði samt virkilega framkvæmt..

ég mætti á vinnustað eftir allt of lítin nætursvefn..
ég vann vinnuna mína á vinnustaðnum..
ég heimsótti pabba..
ég fór heim og skipti um föt og staðalbúnað í bakpokanum..
ég hjólaði um hálfa Reykjavík..
og
ég drakk einn dökkan

ekkert smá góður dagur, dagurinn í dag

10 March 2013

það er ennþá til gott fólk

Eins og oft áður framkvæmdi ég án þess að hugsa...

Ég gekk á Esjuna og þegar ég kom niður ákvað ég að koma við í Krónunni til að versla mér eitthvað að borða strax.  Perur fóru í körfuna, tómatar og klósettpappír og ég skundaði að afgreiðsluborði.  Þegar röðin kom að mér skellti ég draslinu á borðið og reif upp bakpokann til að borga.   En þar var bara ekki nokkurn hlut að finna sem hægt var að borga með þótt ég leitaði vandlega.  Svo ég urraði bara:  ..þá verð ég bara að hætta við að versla..   Mér til undrunar vildi konan á eftir mér borga vörurnar mínar og gerði.

Svo sagði hún bara:   ..þú borðar þetta næst þegar við hittumst..

Ég tali það nú ekki öruggt að við hittumst nokkurn tíma aftur svo að ég fékk reiknisnúmerið hennar og laggði inn á hana um leið og ég kom heim.

Og svo segja einhverjir að:  heimurinn versnandi fer.

Ég er ekki sammála því.

esjubrölt...

leigusambýlingurinn varð þreyttur á mér í dag og bauð mér bílinn sinn til að skreppa eitthvað.  Mér datt ekkert til hugar annað en fjall...


Myndavélin var að þvælast í bakpokanum svo ég ákvað að mynda útivistamómentið...


Klukkutíma og nokkrum mínútum seinna klappaði ég steininum og horfði upp þangað sem ég nennti ekki að fara....


Enda átti ég eftir að brölta niður áður en ég lærði nokkrar sagnir í spænskunni...


Mig langar í nýja myndavél...

Já, ég veit...  ég er búin að segja þetta oft áður....

07 March 2013

hér og nú....

mig langar að búa í miðbænum...

Eins mikið og ég hef gaman að gula-rörs-ferðmátanum... verð ég stundum þreytt á að taka allt með mér að morgni sem ég ætla að nota að kveldi.

Að hætta að lifa bíllausan lífsstíl er samt ekki inni í myndinni.

Það sem er inni:
-postcrossing...   ég skrifa á póstkort og teikna litla mynd og sendi um allan heim.
-poppkorn...  ég veit ekkert betra en að opna einn Max-popppoka og úða honum í mig.
-minnisbækur...  í öllum stærðum og af öllum gerðum.

Ég ætla að læra að synda í þessum mánuði.

03 March 2013

vísbending

Nákvæmlega klukkan tólf byrjaði síminn sem ég hafði gleymt á vinnustað á föstudagskvöld að pípa.  Hljóð sem ég hafði aldrei heyrt í honum áður og ég bara slökkti á því enda upptekin í vinnustaðaleiknum sem var ekki alveg upp á ellefu á föstudag....
Nokkrum mínútum síðar byrjaði hann enn að pípa og ég fór að efast um að þetta væri af mínum eigin völdum en gat ekki skilið hver var að skipta sér af því hvað ég, ritarinn, væri að gera um miðja nótt.  Öll skynjun einblíndi á deildastýruna...  var hún að heimta að ég ynni eitthvað...  hafði ég gleymt einhverju mikilvægu sem ég ætlaði að muna...  o.s.fr.   
Svo ég snéri mér alfarið að þessu pípi og sá þá að á reminders stóð:  Ritari - Athuga verkefnaskúffu f.næturvakt...   sannfærð um að nú ætti ég að vinna eitthvað mikilvægt stökk ég upp og skoðaði verkefnaskúffuna en þar var gulur póstup-miði og á honum stóð hvort ég vissi hvernig 1.apríll væri.  Samvisku minni sveið undan væntanlegum uppgvötunum um að ég hefði gleymt einhverju, klúðrað einhverju eða eitthvaðl.  Á 1.apríl í vaktavinnumöppunni var svo bara annar gulur póstup-miði.  Það var þá sem ég áttaði mig á því að ég væri stödd í ratleik.
Ratleik sem endist mér alla nóttini...

Þetta var góð nótt...  sem endaði með páskaeggjaáti.....

28 February 2013

..má ég vinna lengur en ég má..

..spurði ég Aðstoðarbossinn í dag og hún hló.  Ég ákvað að taka því sem jái, svo ég sat spennt yfir nýjasta tölvuleiknum mínum fram að vaktaskiptum.  Á morgun má ég svo sita við hann fram að vinnutímalokum en þá verð ég að vera búin að leika öll borðin og það upp á 11.  

Lengi lifi vinnustaðaleikir.....

Pabbi skammaði mig í dag fyrir að klára aldrei neitt.  Hann skammaði mig líka fyrir að eiga ekki nógu mörg börn með útskriftarskirteini.  Hann gaf sér samt tíma til að ræða aðeins um þráhyggju sem jákvætt fyrirbæri við mig þótt ég næði honum ekki lengra með það en í umræðu um fólk sem færi aldrei út fyrir þægindarammann.  Ég var ekki alveg að átta mig á honum svo ég fór bara heim í fílu og kvartaði við Leigusambýlinginn.   

Það ætti að leggja niður allt sem heitir Prófskirteini og fara að uppfæra samfélagið með jákvæðum skólaanda sem gengi út á að hafa leik sem lærdóm.  Skóli sem gengi út á að fá að snerta á visku heimsins án þess að þurfa að skemma upplifunina, með kröfu um að taka alltaf stöðluð próf í því hvað maður fær inn á skammtíma vinnsludiskinn,  væri vel vert að lifa fyrir.
Framhaldsskólar færðu mér ekki visku, þeir gerðu mig bara færari í;   ..að lesa í kennara til að sjá hvað það væri sem fengi þá til að gefa mér sem hæsta einkunn, að skrifa frjálslega um eitthvað sem ég hafði ekki hundsvit á og hærri laun við sömu vinnu en áður var.

Niður með einkunnir....

Járnið er alveg að gefa mér jarðtengingu við lífið.  Þrjár sprautur streyma um í blóðinu nú þegar og tvær eftir.  Ég er mikið að spá í því að biðja læknirinn minn um að setja mig í áskrift af öllu sem kikkar svona inn orku handa mér.  Ég er alveg næstum því farin að brosa hringinn aftur.

Bráðum sigli ég lygnan sjó.  

næring:  ..hafragrautur 2x..

heimildarmynd:  ..Exit Through the Gift Shop..

svefn:  ..fimm tímar..

markmið:  ..finna mér þráhyggju..

ef ég fer ekki að koma mér inn á beinu brautina aftur enda ég í svaðinu

26 February 2013

..siglandi inn í næsta maraþonáhorf..

..er ég búin að gleypa fyrsta þáttinn af Game of Thrones..

Kannski ég tileinki laugardeginum þessa sögu.

..tilfinningaflækja..

..það er hægt að væla yfir flestu, en skemmtilegast er þó að væla af tilfinningasemi yfir fræmkvæmdum annarra..

Ég er svona flest alla daga alveg svellkaldur einstaklingur sem fellir ekki tár yfir nokkrum sköpuðum hlut þótt  kannski full ástæða sé til.  Svo fara hormónarnir á flakk og ég vatna músum yfir litlum hlutum.  Ég grenja yfir setningum skrifuðum í bók í yfirfullum strætó af einstaklingum sem vita ekki í hvert hornið þeir eigi að stara.  Ég tárast af hugsunum mínum á göngu eftir strætum borgarinnar.  Og ég hristist af ekkasogum þegar lífið í höfði mínu hreyfist á skjön við umhverfið.

Þess á milli er ég töffari....

hreyfing:  rösk ganga hringinn í kringum Elliðarárvatn....

næring:  núðlusúpa....

heimildarmynd kvöldsis:  man on wire....

verkefni dagsins:  kennsluefni morgundagsins....

Ég á nokkur póstkort og ég ætla að skrifa á þau núna.

25 February 2013

og lífið heldur áfram

..ég var svo þreytt að ég valdi að eiga stund með sjálfri mér frekar en að mæta í partý, passa með mömmu, hjálpa dóttur minni eða læra.


Eigingjörn, ég veit.........

Núna sit ég á bókasafninu  og reyni að átta mig á uppbyggingu hinnar spönsku tungu.

Erfitt, ég veit..........

Í vinnunni á ég að vera að setja niður grunninn að því sem koma skal.

Einstakt tækifæri, ég veit.........

Ef ekki væri fyrir alla þessa frjóu hugsun í kringum mig væri ég með höfuðið undir kodda að bíða eftir að þessari viku lyki.

13 February 2013

fjarverandi

...úr eigin lífi nánast.

Eftir helgi kemur ný vika.  Markmið nánustu framtíðar er að minnka aðeins vinnuna sem ég skila, því auðvitað er ég farin að skila langt fram yfir vinnuskyldu.  Ef ég fer ekki að breyta þessu, neyðist ég til að hnippa í mig sjálfa og eiga nokkur vel valin orð við mig.  Það er bannað að safna svona mikið í vinnustundabankann.

07 February 2013

ég eyddi nóttinni í að....

....smakka á Carlos Castaneda og set stefnuna á að lesa bókina hans um drauma.

Járnið er komið í hús og verður dælt í mig með venfló, hvað svo sem það nú er.   Svo gleðin og hreyfigetan fer að kikka inn á næstu vikum ef allt er eins og það á að vera.

Annars er ég algjörlega búin að missa undan mér fótana í þessum skorti.  En það þarf víst ekki mikið til.  Mér skilst að múgur og margmenni búi um sig inn í mér og heimti sitt.  

Mundos nuVos hangir á borðinu engum til gagns.  Himnaríki og helvíti líka.  Svo og allt hitt sem ég tel mig þurfa að lesa, skoða eða læra hratt og vel.

Ég er búin að planta mér í stofunni með skólabækur og sojabaunirnar eru að sullast um í pottinum á leiðinni í hummus.  Mig langar í bjór og á engan.  Mig langar líka í síkarettu en á enga og er líka löngu hætt þeim ósóma.  Mér bara varð það á að prufa nikótíntyggjó og einhvern veginn kikkaði það svo inn á sálina að hún situr daginn inn og út og vælir.   Mig skortir staðfestuna á múginn minn.

Ég á mér úrklippubók.  Bókina um fólkið sem ég er að skoða.  Í henni er Jón Gnarr og það sem hann hefur verið að bardúsa við undanfarið.  Þar er líka Daniel Johnston, listamaður sem ég eyddi tíma í að hlusta á og lesa um, eftir að ég horfði á heimildarmyndina The Devil and Daniel Johnston.  Maðurinn syngur um lífið og leikur sér í myndlist meðan hann berst við að halda geðheilsu.  Hann Jack Kevorkian er þar líka vegna þess að ég fór að velta mér upp úr hvað væri merkilegt við hann eftir að hafa horft á heimildamynd þar sem honum brá fyrir í lautarferð.  Sixto Diaz Rodriguez er þar líka, þar sem ég hermdi eftir Jóni Gnarr og horfði á heimildamynd um leitina að SykurManninum.  Tónlistamaður sem varð frægur án þess að vita af því í fjarlægu landi. 

Ég geri ráð fyrir að þessi bók þykkni og gildni með tímanum af áhugaverðu fólki eða bara fólki sem er einhvern veginn þannig að það sé gott að hafa það í bókinni...

06 February 2013

kannski gleymdi ég einhverju..

Minni mitt er flogið út í veður og vind.  Það fellur vonandi undir járnskortseinkenni.   Ég, í það minnsta, óska þess heitt að það fari ekki að valda verulegum óþægindum á vinnustað.

Mér þykir gaman að þessari vinnu.....

05 February 2013

þarfnast illilega félagastuðnings...

...ég nefnilega rakst á klett og kemst ekki svo auðveldlega yfir hann.

Þar sem ég stóð í sjálfu musteri bókanna ákvað ég að það væri komin tími til að kynnast Spáni aðeins betur. Út rogaðist ég með tvær þykkar og feitar og tvær aðeins þynnri.  Hugsandi um hvort þessi bókalán komi til með að lukkast eitthvað betur en önnur hjá mér, hugga ég mig við það að án míns stuðnings væru aldrei keyptar inn nýjar bækur.  
En ef ég veit ekki eitthvað meira um Spán bráðum er mér bara ekki við bjargandi.

Me, llamo Elín y me apellido Helgadóttir.

Bráðum verð ég spænskumælandi.....

Bráðum verð ég líka byrjuð að prjóna mér peysu, að elda mér graut og teikna á eins og eitt kort.  En það er bara bráðum....

03 February 2013

nennan er dauð

...ég sit hér ein í ruglinu og nenni engu.

Dagbókin andar köldu á mig.  Rúmið er fráhrindandi.  Og tölvulíf er ekkert að gera sig.

Ég er búin að skrifa nokkur orð á blað og stilla vatnskönnunni minn ofan á það.  Á morgun ætla ég svo að drekka kristalana ofan í mig í fullvissu þess að svona sé þetta.

Ég er komin með málstol.  Þegar ég ætla að segja eitthvað, drattlast orðin út úr mér eins og þau eigi sér sjálfstætt líf.  Terabæt verða að tetrabætum og tetrastöð þá væntanlega að terastöð.  Eða eitthvað...  Ég er líka með hugsanastol því frá því um síðustu helgi er ég búin að glíma við það að reyna að muna með hverjum Kevorkian var í lautaferð og í hvaða þætti.  Ég horfði á það með mínum eigin augum en einhvern veginn tíndist sjónræn úrvinnsla áður en hún vistaðist á harða diskinum.

Te-vísdómsorðin:  ..The physical body is a temple..

Næring:  ..tofu hjá vinkonu..

Hreyfing:  ..hraðganga frá strætistöð fyrir hálf níu í morgun á leið í vinnu..

Ég er að leita mér að nýjum markmiðum.

31 January 2013

ég fyllist af depurð..

..það gekk svo langt að ég var við það að segja upp samningi mínum við lífið.  Ég var alveg við það að henda þeim orðum út í loftið þegar ég mundi hvað það á það til að vera áhrifaríkt svo ég ákvað að segja upp samningi mínum við leiðann..

Ég er að reyna að átta mig á því hver dr. Kevorkian er/var......

29 January 2013

póstkort frá Þýskalandi..

..og það á íslensku.

Í dag voru göngur sumarsins ákveðnar.  Eða Unaðshringurinn með Ella og kíkt á Öræfin til Ellu. Við erum sko alveg með þetta held ég.

28 January 2013

sjóndeildarhringurinn víkkaður

Ég er að hlusta á Daniel Johnston syngja á youtube..    hinn eina sanna Hi, how are you mann.  Eftir ánægjulegt áhorf á heimildarmynd um líf hans og starf, eða þannig, er ég upptekin við að láta hugann reika um listamanninn sjálfan. 

Ég heyrði að hann væri á leiðinni til landsins....

Ég horfði á Side by side...  Home...   Samsara... og örlítið með Karl Pilkington.  Ég skrifaði á Póstkort., borðaði grænmeti og lærði örlítið í spænsku.

Síðan gerði ég ekkert meira.....

Sál mín er brotin og allt mitt geð.   Það var eiginlega verra að vita að járnið er niðri og þreyta, orkuleysi og þungur hugur eitthvað sem fylgir því og þess vegna ekki hægt að hrista af sér aumingjaskapinn og skort á hreyfingu á einu litlu augnabliki.

En bráðum fæ ég sprautu og þá hlýt ég að spretta upp eins og Stjáni Blái af öllu spínatinu.

Ég treysti á það.....

24 January 2013

járnskortur

..ayurveda eða hugmyndafræði sem gengur út á dímona eða íslensk læknisfræði.

Ég þarf að ná upp járnbúskap.

20 January 2013

græðgóttur

..er alveg nýtt orð sem ég lærði í kvöld og hefur eitthvað með græðgi að gera.

..fáðu þér blik í augun
eða þegiðu ella..
     segir í enda eins ljóðs Gnarrs.  Bara það að nafnið mitt kom fyrir í ljóðinu fékk mig til að elska það og þess vegna kem ég til með að bera það í brjósi mínu um aldur og ævi.

Ég stefni á Hringdróttarsögu maraþonáhorf...

Ég stefni í líka á reglulega líkamsþjálfun en á erfitt með að koma mér í gírinn.  Vaxtaræktartröllið á Mínum Vinnustað segir það vera vegna þess að ég hafi ekki ánægjuna af því endurómandi í sálinni.  Hann segir að það breytist eftir að ég sé komin yfir harðsperrutímabilið.  Eftir það verði þetta ekkert nema ánægjan.  

Ég á eftir að sjá það...

Mundos muevos er bókin á borðinu mínu núna.

15 January 2013

ég ætti að vera að gera eitthvað sem ég er bara ekki að gera...

Eiginlega líður mér oft þannig.

Það er, þegar þungt eirðarleysi læðist um sálina og hugsanir mínar snúast um að ég nái ekki að gera allt sem  ég vil og spurningin algóða læsir sig um innviði lífs míns:   ..hvað færir mig næst alheims hamingju..

Er ég að missa af einhverju....

Næring:   ..sæt og nípur..

Hreyfing:  ..ryksugueltingarleikur um allt hús..

Ég grét yfir  Þjóð í hlekkjum hugarfarsins í gær.  Í dag er ég full upp í kok, af gremju fyrir hönd þeirra sem minna mega sín. Vistabönd voru vond bönd.  Stjórnmálaklíkuvinnubrögð dagsins í dag eru líka slæm brögð.  Ég geri samt ekki ráð fyrir að standa upp á afturfæturnar og berjast fyrir bættum landsstjórnunareiginleikum þeirra sem ég gef, hef gefið og mun gefa völdin á landinu.

Mig langar að sauma mér peysuföt.....

13 January 2013

maraþonáhorf

Mér líður eins og ég hafi verið hlunnfarin.

Á laugardag ákvað ég að taka allar Fóstbræðraseríurnar og horfa út í eitt þar til málinu væri lokið.  Í fræðsluyfirliti um Gnarr stendur að þættirnir séu 37 talsins en það sem ég hef undir höndum telur bara 36 og þar af eru tvær þættirnir þeir sömu.   

Hvar og um hvað eru þessir tveir sem ég fer á mis við.....

Úti er farið að snjóa....  og ég hugsa með öfund til krakkanna sem eru í Brynjudal upp undir Súlu að æfa sig á broddum.  Ef ekki væri fyrir vinnu væri ég þar líka.   Það er alltaf jafn skrítið að hugsa til þess hvað vinnan getur truflað mikið fyrir allri áætlunargerð og rifið frá manni margar ánægjustundir án þess þó að maður hljóti varanlegt tjón af.

Ekki vildi ég, í það minnsta, vera án vinnunnar minnar.....

Megi Bonzai-tréð mitt braggast...  megi Skipulagsgáfa mín aukast.. megi lífið blasa við mér um aldur of ævi.. megi ég eiga margar ánægjustundir með fjölskyldu minni og vinum..  og..  megi ég bara heil vera..

Bráðum kemur að því að ég skófli í mig súrum hrútspungum.....

12 January 2013

æjúaska

Mig skortir sýn....

Ég er ein af þessu leiðinlega venjulega fólki sem sér ekkert, trúir á fátt og hagar sér bara ákúrat eins og svo fyrirsjánlegt er af þeim týpum.

Ég á mér ekki Demón sem stjórnar lífi mínu....  það vaka engir Englar yfir mér....  Tröll, Álfar og Draugar láta ekki sjá sig nálægt mér....   og ég á mér engan átrúnað.

Boring....

Spurning um að skreppa til Braselíu til að skoða þetta æjúaska-dæmi nánar.  Æjúaska saman stendur af einhverjum tvemur laufblöðum sem soðin eru saman í seyði sem drukkið er undir eftirliti Gúrúa.  Eftir drykkjuna lifir þú í nánast einn sólahring í eigin heimi með fullt af sýnum sem leiða þig til betra áframhaldandi lífs.

youtube er sko alveg með þetta.....

05 January 2013

það er ekki það sem þú getur gert heldur það sem þú gerir...

Í gær leið mér eins og ég væri föst inn í annarra manna martröð þar sem ég hefði enga möguleika á að vakna upp úr af eigin sjálfræði.   Ég varð bara að sita stjörf af skelfingu með taugarnar þandar, þurrar kverkar og hjartað á þeysireið út úr brjóstinu og vona að martröð þessa annarra manna næði sínum hæðstu hæðum svo hún leystist upp og ég yrði frjáls.

Auðvitað gerði hún það..........

markmið mánaðarins:   ...Hefja ástundun líkamsræktunnar...

menningarmarkmið mánaðarins:   ..lesa og horfa á allt sem tengist Gnarr..

ómenningarmarkmið mánaðarins:   ...prjóna mér lopapeysu...

03 January 2013

Ég ætla að lesa Biblíuna.....

David Attenborough, Graham Hancock, Carl Sagan, David Wilcock og Felix Boumgartner....   

Ég er ennþá með hugann bundinn við Jón Gnarr en þegar ég er búin að fá mig sadda af honum ætla ég að lesa Biblíuna.

Strákur í vinnunni minni sagði að það væri ómögulegt að vara að lesa svona margt í einu.  Hann sagði að það væri betra að byrja á einhverju og klára það.   Það getur vel verið að hann segi satt en ég get bara ekki fest hugann við eitthvað eitt og hangið þar.

Ég er að skoða tákn heimsins, grænmetisuppskriftir, ræktun kryddjurta, Karl Pilkington, Gnarr, útivist, föstur, næringarfræði og neðanþvottamálefni.

Í dag ætla ég samt að liggja bara í rúminu og sofa......

02 January 2013

2013

Formlegu grænmetisári mínu er lokið.

Í allan dag hef ég setið með hönd undir kinn og hugsað um liðið ár og velt fyrir mér möguleikum þess sem gengið er í garð.   Er þetta það sem ég vil....  Er þetta akúrat það sem lífi mínu var ætlað....  Er þetta Vegurinn....

Ég hef lifað fyrirlitningu, gremju, tuð og nagg.  Ég hef líka lifað upphafningu, aðdáund og góðvild.  Ég hef staðið í snjó upp að ökla í einum fjallgarði Frónsins með þrek á við hjartasjúkling vegna vítamínsskorts sem má með góðum vilja og lítilli fyrirhöfn rekja til lífsstílsins, ef vilji er fyrir hendi.  Ég hef einnig lifað margar stundir í hungri vegna þess að samfélagið býður ekki upp á rétta fæðið fyrir fólk sem lifir eftir þeim lífsstíl sem ég kaus mér.  Ég hef oftar en ég vil muna "þurft" að borða hafragraut í öll mál vegna skipulagsskorts.  Og ég hef tekið þá ákvörðun......

.......að borða bara það sem ég vil þegar ég vil.

Ef það felur í sér að vera grænmetisæta fyrir lífstíð ætla ég að halda því fyrir mig.....