21 December 2014

Gleymdu ekki hamingjudraumum þínum...

...sagði Ólafur Kárason Ljósvíkingur.

Ég gleymi þeim reglulega eða brenni þeim vegna þarfar annarra í kringum mig.   Ég er skopparakringla sem reglulega hringsnýst í kringum þá sem ég elska.   Yfirleitt karlmenn sem vilja ekkert með mig hafa.  En hann Halldór Kiljan Laxness er klárlega minn maður í dag.....

Við mæðgur fórum út.  Okkur sammældist um það að hreyfing myndi breyta öllu. 


Eftir að við vorum búnar að kanna tilgang skúrsins við bæjardyrnar og mæla hæð vörðunnar upp á hæðinni mokuðum við pallinn.


Stefnan er svo sett á bjórdrykkju og heitapottaferð fyrir nóttina...

Nýjasta áhugamálið er að mála lítil kort.  Í sambandi við myndlistanámskeiðið sem ég er á er boðið upp á ACT-klúbb sem er klúbburinn sem málar smákort eftir þema.  Ég varð svo heilluð að ég er búin að gera kort fyrir heila fílahjörð...


Það sem heillar mig mest í augnablikinu er Aboriginal art of Australia...



hreyfing:   ...mokstur á pallinum..

næring:   ...hummus úr pingbaunum..

uppljómun:   ...Terence Mackenna

20 December 2014

það malar köttur undir rúminu mínu

Hann malar stanslaust út í eitt.  Ég sofna við malið og vakna við malið.  Ég heyri það hækka og lækka eftir því hvernig athygli mín er hverrja stundu sem ég dvel í hvílu og ég held bara að ég heyri það í svefni mínum líka.

Dóttir mín segir að þetta mal komi úr heita pottinum sem liggur upp að veggnum sem ég sef við en ég kann betur við að hugsa um það sem kött.  Kött sem líður svo vel að hann malar út í eitt.

Hugsanlega reyni ég að ættleiða hann og taka heim með mér þegar þar að kemur.


Hér er lifað lífinu til fullnustu.  Kertaljós í hverju horni og öll hugsanleg spil við hendina.  Það er leti í okkur sem skapast af rigningunni og rokinu sem ræður ríkjum hér úti í Grímsnesinu.


Við mæðgur kunnum að meta jólabjórinn.  

Ég elda og þá er auðvitað ekkert í matinn annað en grænmeti..


Mér tókst að brenna laukinn.  Ég var svo upptekin við að ráða í hvernig maður spilar teninga-SET.  En ég vann..

Við tókum með okkur nýtt púsl og byrjuðum á því í dag.    Því miður kláruðum við það líka.


Þetta á eftir að vera yndisleg vika hjá okkur.

óskastund...

Stjörnurnar umvefja mig og ég þær....

Hér má telja svörtu blettina á himninum og stjörnuhröpin láta ekki á sér standa.  Ég er búin að standa úti og góna upp í loftið eins og ég hafi aldrei séð þetta og í augnablikinu líður mér þannig.  Hvernig nennir nokkur maður að búa undir mengunarhjúp höfuðborgarinnar þar sem ekkert sést og ekkert gerist.

Eitt af því sem mun standa á miðanum mínum um hvernig maður eigi að verða á vegi mínum einhvern daginn er:

-hann á að kunna flesta texta þess sem þegar er búið að syngja og syngja fyrir mig í tíma og ótíma...
-hann á að búa undir stjörnubjörtum himni
-hann á að vera grænmetisæta  
og
-honum á að þykja vænt um fólk

Ég held meira að segja að ég ætla að flytja til hans eftir að hann er búin að finna mig.