29 March 2013

að lifa í núinu og gleyma bæði fortíð og framtíð


sjálfshjálparbækur hamast við að kenna okkur að stoppa í núinu.  Það er talin eftirsóknarverður staður til að njóta lífsins til fulls.  Engin er maður með mönnum nema kunna listina að vera meðvitaður á stundina sem er að gerast.   Fólki er talið í trú um að með t.d. hugleiðslu þurfi að ná núinu ef ekki gefst hæfni til þess á annan hátt.   Fortíðin er liðin og framtíðin ókomin og ekki hægt að lifa lífinu til fullnustu nema að komast á levelið NÚ.

 En er það virkilega svo....

Einstaklingur sem lifir alltaf í núinu man ekki nákvæmlega hvað gerðist í gær og alls ekki nema óljóst allt sem gerðist fyrir þann tíma.  Auk þess kemur framtíðin honum sífellt á óvart því hann er ekki nema óljóst meðvitaður um hvað þurfi til að lifa lífinu áfram.

Núið er alls ekki góður staður til að vera á nema rétt á meðan verið er að njóta augnabliksins.  Svo á að hoppa í hugsun um það sem er skeð til að læra af því eða það sem koma skal til að vera viðbúin.   Það er komin tími til að gefa út sjálfshjálparbók um hvernig megi velta sér upp úr fortíðinni.   Hvernig skuli ná þeirri list að hugsa um liðið samtal og ná að átta sig á hvað viðmælandi virkilega meinti þegar hann sagði:  ..bless..   Eitthvað mætti kenna um, hvað lesa megi í gegnum línurnar til að ná því sem viðmælandi sagði án þess að hann segði það.    Svo væri líka gott að sjá bók um hvernig eigi að vera viðbúin framtíðinni.   Þrátt fyrir daglega dagbókarnotkun er það sem á eftir að gerast seinna og þarfnast lengri undirbúnings alltaf að poppa upp og koma NÚ-istum á óvart. 
Ég myndi kaupa mér þessar bækur án þess að hugsa mig um tvisvar....

26 March 2013

dagur 1....

..ég lifi enn og systir mín reyndar líka.

Akureyri er hvít frá fjallstoppi til fjöru.  Ætlunin er að skjótast á skíði eins og einn dag með afkvæmi afkvæmis míns.  Veltast í sundlaugum staðarins, skoða skautasvæðið þeirra norðlendinga og kannski ganga upp á eins og eitt fjall. 

Systirin er svo upptekin við að ala upp annarra manna börn að hún veitir mér litla sem enga athygli en það sleppur því ég hef verkefni að vinna...  

25 March 2013

textinn er það sem gerir manninn að því sem hann er...

...held ég.

Ég veltist inn á bókasafn í síðustu viku með Bubba í bakpokanum og ætlaði að nýta vel tímann þar til Skriðsundsnámskeiðið mitt hæfist.

Beint strik var tekið að lausu borði þar sem ég ætlaði að hreiðra um mig og njóta augnabliksins með átrúnaðargoðinu.  Það varð lítið út þeirri fyrirætlan því á leið minni varð mér litið í eina hilluna og þar blasti við þykk bók með Bob Dylan og þar sem ég bý með einum sem elskar þann mann heitar en nokkuð annað, greip ég hana til að skyggnast inn í líf sambýlingsins.

Bókin var þykk og stór og í henni ekkert annað en söngtextar Dylans.  

Þar sem ég sat með bókina, lesandi textana, brosti ég og grét til skiptis.  Í dag skil ég fólk sem elskar þennan mann.

heimildamyndaáhorf:  ..The Parking Lot, Dogtown and Z-boys og touching the Void..

næring:   ..súpa úr sætum, linsubaunum og safa úr appelsínu..

hreyfing:  ..bylta mér í rúminu..

ég horfði á Emmu dansa á árshátið Grundaskóla og færði henni páskaegg...  Emelía fer með mér á Akureyri þegar dagur rís og eyðir þar með páskahelginni með mér og Emblu verð ég að kíkja á áður en ég yfirgef stórborgina...

Það er gott að eiga ættingja....

20 March 2013

dauðsmannsleiði....

er eitthvað sem getur hellst yfir þegar gáfulegar hugsanir fljóta út í tómið, týndar.

Leiði er einn og sér afskaplega skrítið fyrirbæri þegar heimurinn er fullur af ógerðum hlutum.  Þegar hann verður til vegna vonbrigða verður hann innantómur hégómi sem varla er vert að tala um.  

Leiði er óskiljanlegt fyrirbæri.  Hvernig er hægt að vera leiður eða láta sér leiðast þegar það er svona agalega margt sem hægt er að gera á hverjum degi.   Þegar dagarnir augljóslega bera með sér alheimsmagn af spennandi hlutum sem hægt er að framkvæma, hugsa um, tala um eða horfa á...   Lífið rúmar ekki einu sinni það sem margt fólk langar að gera.

Samt læra mörg börn strax í frumbernsku að segja:  ..mér leiðist..

MÉR LEIÐIST, MÉR LEIÐIST, MÉR LEIÐIST.   Þetta er með einsdæmum leiðing setning, vegna þess að engum leiðist í raun.  Mann gæti langað að hafa einhvern til að tala við eða verið leiður vegna þess að eitthvað fór ekki eins og því var ætlað að fara.   

En.... er hægt að vera svo leiðinlegur að manni leiðist eða er leiður til lengdar.

Varla.

Þessi leiðindarfærsla skapast af leiða.   Leiða sem skapaðist af leiða vegna týndrar færslu.  Færslan var náttúrulega ein af þessum færslum sem voru öðrum færslum betri og átti svo sannarlega erindi til allra þeirra sem halda að einhver sé skemmtilegri en annar.   

Sérstaklega var þessarri færslu ætlað að koma mér til æðri þroska.   Og æðri þroski er ekki svo auðfengin bæting á lífið að það sé vert að gera grín að því þegar tækifærist skapast.

Núna verð ég að finna þroska minn annars staðar.....

19 March 2013

rassgat í bala...

  
er blótsyrði...

og nú hendi ég því yfir heiminn.  RASSGAT Í BALA.

hugsanir...


Smiles in the sunshine
And tears in the rain
Still take me back to where my memories remain
Flickering embers growing higher and higher
As they carry me back to the........

ég man ekki lengur hvaðan þetta kom.....  en einhvers staðar las ég þetta.

12 March 2013

að nenna eða nenna ekki

Ég er búin að lifa í fjöldamörg ár án þess að nenna að hafa skoðun á einu eða neinu.

Það er til dæmis ekki langt síðan ég var spurð að því í hundraðasta sinn hver væri uppáhalds tónlistamaðurinn minn.  Í upphafi þegar ég var spurð í 99sinn, svaraði ég: ..enginn.. og ég meinti það. Ég á engan uppáhalds tónlistamann.  Ég hlusta bara á tónlist án þess að heyra hana.  Tónlist er í mínum huga bara eitthvað sem er.  Tónlist lætur mér líða vel eða illa og allt þar á milli.  Mér er í raun sama úr hvaða barka hún kemur, hún þarf bara að tóna við sálina í hvert og eitt sinn.  Spyrjandinn vildi ekki trúa þessu svo hann spurði aftur og það var þá í þetta umrædda hundraðasta sinn.  Svo ég svaraði:  ..Bubbi.  Bubbi er minn uppáhalds tónlistamaður..  Fyrir svarið fékk ég hlátur, aðdróttanir og mikið fuss og svei á persónuna sem stendur á bak við nafnið svo ég ákvað að standa með því alla leið.

Það var þá sem ég áttaði mig á því að ég hef skoðanir á hinu og þessu.  Mér hefur bara í gegnum lífið ekki fundist taka því að standa með eigin skoðunum á einu eða neinu.  Í fyrsta lagi elska ég Bubba út af lífinu einn daginn og er sannfærð um að hann sé það eina rétta.  Næsta dag finnst mér svo kannski lítið sem ekkert í hann varið.   Í öðru lagi þekki ég fullt af fólki sem finnst bara fuss og svei um skoðanir annara og gera allt sem í þeirra valdi stendur til að vitka annað fólk og getur verið afskalplega þreytandi í að koma manni á rétta leið.  

Svo er það eitt, sem eiginlega gerir mig frákverfa við að halda á lofti eigin skoðunum, hvað það er mikið af fólki þarna úti sem verður fúlt og lítur á það sem árás á eigin sál ef einn neitar að falla að hópnum og hefur aðra sýn á umræðuefninu.

Í kvöld var eitt af þessum skiptum sem skoðanir mínar stigu á tærnar á nærstöddum.  Ég neitaði upphátt að tala illa um ábyrgðaraðila gönguhóps sem gekk á fjall og missti einn af hópnum endanlega úr liðinu vegna slyss.  Ég beinlínis krafðist þess að ekki væru gefnar út stórar yfirlýsingar á staðnum um ábyrgðarleysi þeirra án þess að vera með haldgóðar frásagnir, frá fólkinu sem virkilega var í þessari göngu, um atburðarásina í heild. 

Mér leiðist eldhúsborðsumræður þar sem dæmt er um lélegheits einhvers sem ekki getur varið sig vegna fjarveru.

Ég get aftur á móti ekki, hvernig sem ég rembist, komið mér upp vitrænum stjórnmálaskoðunum...

Spyrillinn minn, sá sem lét sér varða tónlistasmekk minn á sínum tíma, sýndi mér samt fram á að maður getur stundum grætt á því að hafa skoðun, því eftir að hann vissi að ég var Bubba-lingur þá spilaði hann oft og iðulega lögin hans í nærveru minni þar sem hann sat eða stóð með gítarinn...

11 March 2013

hugsanavilla

..mér hættir til að einblína of mikið á það sem ég geri ekki í stað þess að sjá það sem ég þó framkvæmi...

um leið og ég steig inn um dyrnar þar sem ég halla höfði mínu alla daga varð mér hugsað til þess að ég hefði ekkert þrifið í dag, ekki litið auga í bók og að ég væri ekki búin að gera neitt af viti í allan dag ef frá eru talin afrek mín á vinnustað..

ég náði samt í þetta sinn að snúa út úr þessari hugsanavillu og telja upp fyrir sjálfri mér hvað ég hafði samt virkilega framkvæmt..

ég mætti á vinnustað eftir allt of lítin nætursvefn..
ég vann vinnuna mína á vinnustaðnum..
ég heimsótti pabba..
ég fór heim og skipti um föt og staðalbúnað í bakpokanum..
ég hjólaði um hálfa Reykjavík..
og
ég drakk einn dökkan

ekkert smá góður dagur, dagurinn í dag

10 March 2013

það er ennþá til gott fólk

Eins og oft áður framkvæmdi ég án þess að hugsa...

Ég gekk á Esjuna og þegar ég kom niður ákvað ég að koma við í Krónunni til að versla mér eitthvað að borða strax.  Perur fóru í körfuna, tómatar og klósettpappír og ég skundaði að afgreiðsluborði.  Þegar röðin kom að mér skellti ég draslinu á borðið og reif upp bakpokann til að borga.   En þar var bara ekki nokkurn hlut að finna sem hægt var að borga með þótt ég leitaði vandlega.  Svo ég urraði bara:  ..þá verð ég bara að hætta við að versla..   Mér til undrunar vildi konan á eftir mér borga vörurnar mínar og gerði.

Svo sagði hún bara:   ..þú borðar þetta næst þegar við hittumst..

Ég tali það nú ekki öruggt að við hittumst nokkurn tíma aftur svo að ég fékk reiknisnúmerið hennar og laggði inn á hana um leið og ég kom heim.

Og svo segja einhverjir að:  heimurinn versnandi fer.

Ég er ekki sammála því.

esjubrölt...

leigusambýlingurinn varð þreyttur á mér í dag og bauð mér bílinn sinn til að skreppa eitthvað.  Mér datt ekkert til hugar annað en fjall...


Myndavélin var að þvælast í bakpokanum svo ég ákvað að mynda útivistamómentið...


Klukkutíma og nokkrum mínútum seinna klappaði ég steininum og horfði upp þangað sem ég nennti ekki að fara....


Enda átti ég eftir að brölta niður áður en ég lærði nokkrar sagnir í spænskunni...


Mig langar í nýja myndavél...

Já, ég veit...  ég er búin að segja þetta oft áður....

07 March 2013

hér og nú....

mig langar að búa í miðbænum...

Eins mikið og ég hef gaman að gula-rörs-ferðmátanum... verð ég stundum þreytt á að taka allt með mér að morgni sem ég ætla að nota að kveldi.

Að hætta að lifa bíllausan lífsstíl er samt ekki inni í myndinni.

Það sem er inni:
-postcrossing...   ég skrifa á póstkort og teikna litla mynd og sendi um allan heim.
-poppkorn...  ég veit ekkert betra en að opna einn Max-popppoka og úða honum í mig.
-minnisbækur...  í öllum stærðum og af öllum gerðum.

Ég ætla að læra að synda í þessum mánuði.

03 March 2013

vísbending

Nákvæmlega klukkan tólf byrjaði síminn sem ég hafði gleymt á vinnustað á föstudagskvöld að pípa.  Hljóð sem ég hafði aldrei heyrt í honum áður og ég bara slökkti á því enda upptekin í vinnustaðaleiknum sem var ekki alveg upp á ellefu á föstudag....
Nokkrum mínútum síðar byrjaði hann enn að pípa og ég fór að efast um að þetta væri af mínum eigin völdum en gat ekki skilið hver var að skipta sér af því hvað ég, ritarinn, væri að gera um miðja nótt.  Öll skynjun einblíndi á deildastýruna...  var hún að heimta að ég ynni eitthvað...  hafði ég gleymt einhverju mikilvægu sem ég ætlaði að muna...  o.s.fr.   
Svo ég snéri mér alfarið að þessu pípi og sá þá að á reminders stóð:  Ritari - Athuga verkefnaskúffu f.næturvakt...   sannfærð um að nú ætti ég að vinna eitthvað mikilvægt stökk ég upp og skoðaði verkefnaskúffuna en þar var gulur póstup-miði og á honum stóð hvort ég vissi hvernig 1.apríll væri.  Samvisku minni sveið undan væntanlegum uppgvötunum um að ég hefði gleymt einhverju, klúðrað einhverju eða eitthvaðl.  Á 1.apríl í vaktavinnumöppunni var svo bara annar gulur póstup-miði.  Það var þá sem ég áttaði mig á því að ég væri stödd í ratleik.
Ratleik sem endist mér alla nóttini...

Þetta var góð nótt...  sem endaði með páskaeggjaáti.....