30 April 2012

29 April 2012

að klára

Smalinn er ónýtur.  Hann hringdi vælandi í mig til að segja mér það.  Sem þýðir það að hann kemur til með að horfa á rassinn á mér í fyrirhugaðri ferð okkar á Hvannadalsnjúk eftir tólf daga.  

Kona frænda míns segir að ég megi ekki fara á hnjúkinn nema ég nái upp að Steini á einum og tuttugu mínútum. Ég er ferlega fegin að hún hafi sagt þetta því ég var alltaf að rembast við að ná þangað upp á 50 mínútum án árangurs svo nú get ég farið að slaka á og njóta göngunnar.

Ég á hvítvínsflösku og bjórdós í ísskápnum.  

Ekki að það skipti máli í lífi mínu ákúrat núna en það er alltaf gott að vita hvað maður á. Ég á reyndar líka frosin vínber, tvö páskaegg og tahini í krukku.

Stelpurnar sem ég var að leika við um helgina spáðu fyrir mér í bolla.  Samkvæmt því sem þær lásu úr bollanum elska ég einhvern sem elskar mig ekki neitt og það er ekkert sem ég get gert við því.  Eina sem ráðlagt er í því samhengi er að setjast á þúfu og bíða eftir að ástin fjúki út í vindinn.

Ég tók peysu Æ-mannsins með mér í sumarbústaðaferðina staðráðin í að takast á við aðskilnaðarkvíða minn og vinna að því að klára sjálfa peysuna.   Með peysuna í fanginu alla helgina að sauma, rekja upp, sauma og rekja meira upp áttaði ég mig á því að ég er bara alveg tilbúin til að klára hana.   Núna skoða ég blöð og velti fyrir mér í huganum hvernig best sé að haga prjónaskpnum á hettunnni svo að vel fari.

Svo finn ég bara eitthvað nýtt til að prjóna á Æ-manninn til að geta átt samskipti við hann áfram...........

25 April 2012

tíminn drepinn

Ég var rekin úr félagsskap fólks sem ég er búin að vera í síðan ég man eftir mér.   Ég var rekin fyrir að vera leiðinleg og fyrir að vera sofnuð rétt upp úr miðnætti.   Toppmaðurinn segir að eitthvað hafi breyst og ekki til batnaðar.  Hann heldur því fram að það sé grasið.


Frá mínu sjónarhorni er allt eins og það á að vera....

Ég borðaði, ég fór í pottinn, ég rölti niður í á (reyndar ein og í sopa) og ég fór út í ánna sem strákarnir halda fram að sé sjór og settist niður til að skýra hugann.

Ég lifði hratt, sofnaði snemma og var komin á fætur nógu snemma til að heyra hamingjuhljóð samferðafélaga minna deyja inn í daginn.

Ég kláraði svo að ganga á það Helgafell sem þarna stendur fyrir hádegi.


Þá telst mér til að ég sé búin að ganga á helming þeirra Helgafella sem á Íslandi standa eða 4 af 8....

Ef ég reykti væri ég með einbeittan ásetning um að keyra niður í Hvalfjarðargöngin, stoppa bílinn, leggjast upp á húddið og reykja eina rettu.   Þar sem ég reyki ekki verður þetta seint að veruleika nema Æ-maðurinn láni mér rafrettuna sína og sjái um að reykja eina alvöru, um leið, til að ljá mér lykt. 

Á leiðinni vestur andaði ég að mér loftleysinu og þreyfði á hitastiginu þarna niðri  í jörðinni.........

Á leiðinni suður aftur ók ég vagni Nördsins og ég er á honum enn......

Skemmtilegt að vera búin að skoða Stykkishólm, að hafa borðað í skemmtilegum félagsskap og að hafa rennt niður eins og einni hvítvínsflösku á virkum degi.   

Skál.....

23 April 2012

rúsínur

Í dag hoppaði ég út í kaldan, SEX komma eitthvað heitan, sjó.  Það var aðeins of kalt fyrir mig til að synda út að kletti, skríða þar í land og ganga svo sem leið lá yfir að heita pottinum.  Öndunin fraus, húðin hljóp í flekki og eitt andartak skreið hræðslan upp eftir hrygg mínum og skildi eftir sig sár á sálinni.

Núna er liðin rúm vika frá því að ég flutti inn í Mosfellsbæ til að líta til með einu húsi og öllu sem tilheyrði því.  Á einhvern undarlegan hátt líður mér eins og hér eigi ég heima.  Að þetta sé sundlaugin mín, bókasafnið mitt og gönguleiðarnar mínar.

En það er ekki veruleiki minn........

Kvöldinu í kvöld eyddi ég í að holufylla þessa tilveru.  Ég gaf börnunum að borða það sem þau vildu.  Ég æddi um húsið til að ganga frá drasli sem ég var nokkuð viss um að hafa ekki verið þegar Heilsuhvíslarinn fór. Og ég strauk öllu hlýju, reyndi að hlúa að því eftir bestu getu og hugsði um hvað heima er alltaf best...

Ég er fátæklingur með iPhone4 í vasanum og akandi um á vespuræfli.


Það er að segja að ég er nógu fátæk til að ganga um á rifnum skóm með sæluglott á andlitinu yfir auðleggð minni....   

elina.blogcentral.is

geymir sögu lífs míns eftir að ég fór að lifa því....

Ég fór á fætur í morgun þótt ég nennti því ekki, rúllaði upp í Esjuhlíðar og kom mér svo fyrir í heitapottinum í Lágafellslauginni fram að lögbundnum vinnutíma mínum á Mínum Vinnustað.

Það eru tuttugu dagar þar til ég ætla mér að standa á toppi Íslands.  Ég veit ekki á hvaða hraða ég verð á leiðinni en ég er hrædd um að ég verði síðust.   Það góða er að sá fremsti er háður þeim síðasta svo að ég verð ekki skilin eftir.

Á morgun er stubbadagur á Mínum Vinnustað svo ég ætti að hafa smá tíma til að taka til áður en Heilsuhvíslarinn kemur heim.   Á morgun er líka sjósund í sjálfu Atlantshafinu og bara einn dagur þar til ég verð stödd í heitum potti meðal hluta vinnufélaga minna.

Ég er að reyna að fletta bók sem ég fann hér um KUNDALINI YOGA en hef bara ekki orku til að vaka svona lengi.

Ég á mér ósk.........

21 April 2012

langarmikiðaðskríðaundirsængogsofalengi

Úti er nánast myrkur en blár og rauður litur sólsetursins dregur til sín augu mín hér úr rúminu sem er í herbergi Heilsuhvíslarans.  Herberginu sem ég vil eiga um aldur og ævi.   Ég velti því fyrir mér hvort ég hafi einhvern hústökurétt þar sem það er ég sem er hér núna en ekki hún.

Annars lifir allt kvikt hér í húsinu ennþá, húsið er heilt og allir við hestaheilsu.  Það hlýtur að vera jákvætt.....

Ég fór á Esjuna í morgun, skellti mér í Lágafellslaug og vann mína tólf tíma á Mínum Vinnustað.   Morgundagurinn verður skuggamynd af þessum degi.   Nema betri.

Svo nenni ég bara ekki að hugsa meira, skrifa meira eða yfir höfuð að gera neitt meira á þessum degi.  Ég er þreytt....

19 April 2012

Yfirtökuheimili mitt

Ég á að vera að gera eitthvað stórt núna......   ganga á Esjuna, rölta einhverja 20 km einhvers staðar eða hjóla af krafti um nágrennið.   Þess í stað hringa ég mig um sjálfa mig, skoða sjósundssöguna og horfi á allt sem betra væri að framkvæma eða gera hér á þessu heimili.

Inn við beinið er ég samt jafn dugleg og ég er góð......

Ég hef ákveðið að flytja endanlega heim til Heilsuhvíslarans og búa þar hamingjusöm til æviloka.   Heima hjá henni er hitastigið lífvænlegt yfir nóttina og svo finnst mér gott að vera svona nálægt Esjunni.


Ég flutti inn á annarra manna heimili að mig minnir á föstudagskvöld og þar mun ég vera fram á þriðjudagsmorgun.   Með heimilinu fylgir bíll sem ég hef til eigin umráða, tvö og hálft barn, tveir hundar, tveir kettir og ein kanína.   Og einhver kvöð um að hugsa sómasamlega um allt kvikt.

Ég er alveg ákveðin í að gera mitt besta......

Ég á iphone4 sem ég kann ekkert á og ég er nokkuð viss um að það voru kaup kæruleysisins því ég er ekki að sjá að það gangist mér eitthvað að hafa allar þessar upplýsingar á einum og sama staðnum.  

En það er gott að eiga.....

Æ-maðurinn er farin að spyrja mig hvernig mér gangi með peysuna sem ég er að prjóna handa honum.  Ég er ekkert viss um að ég vilji klára hana og ljúka þessu sambandi sem við eigum sem sameiginlegir forsjármenn einnar og sömu peysunnar svo ég ulla bara og sný upp á mig og kveiki á anguværri tónlist Bubba.

Ég vil hafa þennan mann í kringum mig lengur....

13 April 2012

lífið vefst fyrir mér

Allt sem ég ætti að vera búin að gera er ógert og það sem skiptir engu máli er frá....

Ég er með kvef og ætla ekki að sinna fjallgöngu- og sjósund skyldum mínum í dag.  Ég ætla að sita hér í hitanum í móki og hugsa um hvað ég eigi að taka með mér í Mosfellsbæinn.   

Listinn yfir það sem ég þarf:

Teikniblokkin
Bókin
Tölvan
Síminn
Tannbustinn
og 
Dagbókin

Kannski hugsanlega mögulega...   væri gott að taka með sér föt til skiptanna, sundföt og gönguskó.

Ég held barasta að ég sé tilbúin........

08 April 2012

súkkulaðiátsdagur ársins 2012

Á þessu heimili er ástandið þannig að hámarks klæðnaður innan dyra er venjulega nærfatnaður og búið.  Því kemur það skemmtilega á óvart að vakna í svölu lofti....

Ég les The Graveyard Book, ein,  liggjandi heima hjá mér á sjálfan páskadag.  Ekki að það sé neitt merkilegra en að liggja ein heima á sjálfan fimmtudaginn 28unda eitthvað.  Ég bara finn mikið fyrir því að eiga ekki einu sinni eitt stikki barn á heimilinu til að fela páskaegg fyrir eða til að deila með hver málsháttur páskaársins er.  En það venst....

Ég les bók sem uppfræðir mig um merka menn.  Núna veit ég hver Delano er og hvað hann gerði fyrir Bandarísku þjóðina, hver fann upp firðskipti, hvað kebi er og að Tagore var indverskur kebi.  Ég veit líka hvað gerðist 17.desember 1903 og hverjir voru þar á ferð.  Að frægur maður reyndi að kenna dýrum að tala, kynbæta sauðfjárstofn sinn, að fljúga á risavöxnum flugdreka, koma á heims-ensku og búa til vatnabát.  Síðan á ég að vita eitthvað misgáfulegt um Wagner en eina sem situr eftir af þeim lestri er lundafar hans....

Ég skoða fat, sick and nerly dead á youtube og velti fyrir mér djúsagerð.  Ég skoða líka hvað Carl Sagan hefur að segja um 4th dimension og að kannski sé svarthol inngangur á milli vídda.

Ég leita eftir einhverju gáfulegu í vefheimi, sendi út stöðu mína á andlitsbókinni og les blogg vina minna og helstu teiknimyndasíður sem ég man eftir.

Í raunheimi og fyrir utan rúm mitt liggja baunir, möndlur og hnetur í bleyti, tilbúnar til að lenda í framandi réttum sem ég ætla að hafa til átu það sem eftir lifir helgarinnar.  Í ísskápnum er íste og ávextir og grænmeti til að metta ættbogann í þrjá daga um það bil.   Og í útvarpinu ómar kristileg tónlist sem ég held að tilheyri útvarpsmessu.

hugsanlega, kannski fer ég út og hreyfi mig eitthvað......