17 November 2013

bergmál dagsins..

Það snjóar.

Á Mínum Vinnustað er það ekki alveg á hreinu á milli eyrna minna hvað ég á að vera að gera og hvað ekki. Svo yfirleitt geri ég bara það sem ég held að ég verði að gera.  

Sem leiðir mig svo oft út í bölvaða vittleysu...  

Ég fór í rauðan kjól, setti á mig rautt naglalakk, eldrauðan varalit og málaði mig í kringum augun.  En það tók engin eftir því að ég væri til þrátt fyrir það.

Svo ég sit enn á eintali við sálina með Bubba á fóninum...

Öll helgin fór í að hugsa um þrjá ketti, tvo hunda  og tvö og hálft barn fyrir vinkonu mína sem veltist um á Akureyrir við að kenna þeim eitt og annað. 

Ég sit úti í horni og blæs og blæs á öll hárin sem ráðast á mig og veit ekki hvort ég kem til með að sigra þessa orustu eður ei.

Ef ég lifi þetta ekki af vil ég að þið vitið það að mér þykir oggulítiðpínuponsu vænt um ykkur....

16 November 2013

detta í það kvöld

nú er ég fullur ræfill og róni
reikull í spori drekk ég mitt vín
Hagandi mér eins og helvítis dóni
dragandi stráka upp í til mín.

ég reyndi það ekki, en ég hefði verið alveg til í......

10 November 2013

ég tók hvíldardaginn heilagan..

..ég hugsaði mín mál og lék mér svo það sem eftir lifði dags.   En ég nennti ekki út.....

Ég hlusta á Owl City út í eitt.   Þeir eiga titillagið í animation myndinni The Croods, Shine Your Way.  Ég horfði líka á Hugo. Að hluta til um manninn sem bjó til myndina ..le voyage dans la lune.. frá árinu 1902 sem ég horfði á fyrr á árinu.  Ég er líka búin að horfa á nokkrar stutt, stutt myndir um lífið og lagið og ætla að halda áfram með frekari áhorf fram á nótt.


Uppáhalds myndin mín eftir gærdaginn.   Ég fór nefnilega að hlusta á Ljótu hálfvitana og fékk tækifæri til að mynda mig í örmun nokkura meðlima hljómsveitarinnar.

Það er ágætt að þekkja rétta fólkið...

06 November 2013

ég leitaði sannleikans í tölum en fann hann ekki..

..sagði Konfúsíus eða næstum því það..   Ég hef þetta ekki orðrétt eftir honum, enda hef ég aldrei hitt manninn.  En tölur lögðu samt einhvern grunn að bandalagi milli vísinda, skynsemi og trúarbragða hér aftur í fortíð og til dagsins í dag.

Það er einhver ólýsanleg ró yfir tölum og öllu því sem lítur að þeim.  Vinna með tölur er líka ekki einhver geðþóttar ákvörðun eins eða neins.  Annað hvort kanntu að reikna dæmið eða ekki.  Annað hvort voru tíu konur þarna eða ekki.  Svo má æsa sig yfir því hvort þær voru í fallegum bláum kjól eða himneskum safírgrænum.  Hvort þær nutu þess að vera þarna eða ekki.  Og hvort þær fóru snemma eða seint.

Ég ætla ekki að taka eins sterkt til orða og Pýþagóras um að ALHEIMURINN byggist á tölum en heimurinn væri töluvert innihaldslausari og óreiðukenndari án þeirra. 

eeeeeeeeeiiiiiiiiinn

hættu að telja þetta er ég.

05 November 2013

þaðerdásamlegtaðhugsatilþessaðþaðskulikomasólaftureinhverntíma

Ég er komin með skammdegisþunglyndi.

Ég vaknaði í morgun við ískrið í klukkunni og var andartak að vona að þetta væri bara vekjari sambýlingsins sem væri að gala á hann að vakna til að horfa á eitthvað.  Þegar ég fattaði að það væri óskhyggja ein velti ég mér af einni hlið á aðra, til að kanna ástand lífs míns.  Það reyndist í góðu lagi svo ég var tilneydd til að fara á fætur og drulla mér í vinnu.

Lífið er ekki alltaf eins og það á að vera....

Einu sinni í viku helga ég það sem eftir lifir dags, eftir vinnu, í mig sjálfa.  Þann dag reyni ég að gera ekki neitt fyrir einhvern annan, vinna í leiðinlegum skammtíma verkefnum eða hugsa um eitthvað annað en mig sjálfa. Það tekst misvel.  Í dag sat ég þó nokkra stund við að fá mig til að viðurkenna hvað ég virkilega vildi.  

Eftir það var lífið leikur einn....

hreyfing:   ..engin..

næring:   ..léleg..

menning:   ..internetið..

ég held virkilega að þetta sé ekkert annað en sjúkdómur.