19 April 2012

Yfirtökuheimili mitt

Ég á að vera að gera eitthvað stórt núna......   ganga á Esjuna, rölta einhverja 20 km einhvers staðar eða hjóla af krafti um nágrennið.   Þess í stað hringa ég mig um sjálfa mig, skoða sjósundssöguna og horfi á allt sem betra væri að framkvæma eða gera hér á þessu heimili.

Inn við beinið er ég samt jafn dugleg og ég er góð......

Ég hef ákveðið að flytja endanlega heim til Heilsuhvíslarans og búa þar hamingjusöm til æviloka.   Heima hjá henni er hitastigið lífvænlegt yfir nóttina og svo finnst mér gott að vera svona nálægt Esjunni.


Ég flutti inn á annarra manna heimili að mig minnir á föstudagskvöld og þar mun ég vera fram á þriðjudagsmorgun.   Með heimilinu fylgir bíll sem ég hef til eigin umráða, tvö og hálft barn, tveir hundar, tveir kettir og ein kanína.   Og einhver kvöð um að hugsa sómasamlega um allt kvikt.

Ég er alveg ákveðin í að gera mitt besta......

Ég á iphone4 sem ég kann ekkert á og ég er nokkuð viss um að það voru kaup kæruleysisins því ég er ekki að sjá að það gangist mér eitthvað að hafa allar þessar upplýsingar á einum og sama staðnum.  

En það er gott að eiga.....

Æ-maðurinn er farin að spyrja mig hvernig mér gangi með peysuna sem ég er að prjóna handa honum.  Ég er ekkert viss um að ég vilji klára hana og ljúka þessu sambandi sem við eigum sem sameiginlegir forsjármenn einnar og sömu peysunnar svo ég ulla bara og sný upp á mig og kveiki á anguværri tónlist Bubba.

Ég vil hafa þennan mann í kringum mig lengur....

1 comment:

  1. Sýnist á öllu að ég þurfi að rífa þig fram úr klukkan 6 í fyrrmálið.

    ReplyDelete

þú mátt tala hafrún